Fimmtudagur 1. júlí 1999

182. tbl. 3. árg.

Stundum heyrist það nefnt að þyngja þurfi dóma yfir þeim sem flytja fíkniefni tl landsins. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrir nokkru Kio Alexander Briggs í sjö ára fangelsi fyrir smygl á 2000 e-töflum til landsins. Briggs hefur frá því hann var handtekinn haldið því staðfastlega fram að hann hafi ekki vitað um efnin í farangri sínum er hann kom til landsins. Danskur dómstóll dæmdi íslenskan táning einnig nýlega í átta ára fangelsi fyrir tilraun til smygls á fíkniefnum. Nú er það rétt að e-töflur og önnur ólögleg fíkniefni eru varasöm efni, en það er enginn neyddur til að kaupa þau af þeim sem flytja þau inn. Það virðist ekki sérstaklega sanngjarnt að menn séu lokaðir inni stóran hluta ævinnar fyrir að selja fólki það sem það vill kaupa. Ef löng fangelsisvist bíður þeirra sem slíkt gera hvað eigum við þá að gera við menn sem beita aðra ofbeldi og fremja jafnvel morð?

Í gær sýknaði sami dómstóll hins vegar Briggs fyrir sömu ákæru og hann hlaut sjö ára fangelsisdóm fyrir áður. Það kemur svo sem ekki á óvart að dómstóllar verði tvísaga í málum af þessu tagi. Hvaða ferðamaður sem er getur orðið fyrir því að einhver laumi fíkniefnum inn á hann og hringi svo í lögregluna til að láta loka hann inni. Jafnvel í sjö eða átta ár! Í gær var sakborningurinn að vísu sýknaður, en það þarf ekki fjörugt ímyndunarafl til að sjá að veruleg hætta er á að saklausir menn lendi í fangelsi. Sérstaklega þegar litið er til þess að þeir sem koma sök á aðra telja sig jafnvel verða verðlaunaða af lögreglu með vægari rannsókn á eigin málum. Við þetta bætist svo að fíkniefnasalar eiga auðveldara en aðrir afbrotamenn með að bjóða lögreglunni mútur. Fíkniefnasalinn hefur ekki brotið á neinum og þess vegna er ekkert fórnarlamb sem fylgir því eftir að fíkniefnasali sem lögreglan handsamar sé ákærður. Það eina sem hann hefur brotið eru lögin. Lögin kvarta ekki þótt lögreglan láti mál niður falla eða rannsaki þau með hangandi hendi.

Útlit er fyrir að smám saman sé almenningsálit að snúast gegn þeim sjónarmiðum að berjast eigi við þá vá sem fíkniefni geta verið með þyngri dómum og aukinni löggæslu. Víða erlendis eru þær raddir orðnar háværari en áður að farsælla sé að afnema bann við fíkniefnum en að halda áfram vonlausu „stríði“ sem gerir illt verra. Þetta má til að mynda sjá á þeim hljómgrunni sem lögleyfing maríúana í lækningaskyni hefur fengið í Bandaríkjunum, en þar hefur víða verið kosið um hvort leyfa eigi slíkt. Í um það bil tíu síðustu kosningum um málið hefur almenningur samþykkt að notkun maríúana í lækningaskyni skuli heimiluð.