26. tbl. 13. árg.
S amfylkingarmenn hafa lagt mikla áherslu á kosningar því endurnýja þurfi umboð þings og ríkisstjórnar áður en nokkuð sé hægt að gera. Samfylkingin vill þó gera eina minniháttar breytingu áður en kosið er en það er að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskránni svo koma megi Íslandi án tafar í Evrópusambandið.
- Herdís Þorgeirsdóttir, varaformaður samtaka evrópskra  	kvenlögfræðinga, sagði í einkaviðtali við Ríkissjónvarpið í gær að Ísland,  	eftir þrot bankanna þriggja, væri sambærilegt við Austur-Evrópu eftir hrun  	Berlínarmúrsins. Sama þörfin væri á „nýrri stjórnarskrá“. Svona talar  	varaformaður þessara merku samtaka. Hvað ætli kæmi ef viðtal fengist við  	formanninn? Hvert einasta viðtal við Herdísi dýpkar umræðuna hverju sinni.  	Verst hvað fátt lifir á því dýpi.
 
- Ekkert hefur komið fram um neinn ágreining milli stjórnarflokkanna um  	efnahagsaðgerðir. Allir hlutaðeigandi segjast sammála um að þær séu það sem  	öllu skiptir. Samt vofa yfir stjórnarslit ef ekki næst „niðurstaða“ í dag  	eða morgun. En ekki niðurstaða um efnahagsaðgerðirnar sem menn láta samt  	eins og séu svo brýnar. Þetta hlýtur að vera Íslandsmet í ábyrgðarkennd án  	atrennu.
 
- Fréttamenn sjá ekkert að því að viðræður Sjálfstæðisflokks og  	Samfylkingar snúist jafnan um kröfur og skilyrði Samfylkingarinnar. Hefur  	Sjálfstæðisflokkurinn einhvern tíma sett fram einhverjar kröfur?
 
- Það er ekkert við því að segja að eftir þingkosningar verði  	stjórnarkreppa, ef flokkum tekst ekki að ná saman um málefnasamning. En að  	hún sé búin til, þremur mánuðum fyrir kosningar, og ekki vegna málefna, er  	alger nýlunda. En stjórnarþátttaka Samfylkingarinnar var reyndar alger  	nýlunda líka, svo menn hafa kannski átt að vera viðbúnir þessu.
 
- Einn frasinn sem oft er farið með, er að fá eigi Útlendinga til að taka  	að sér mikilvæg störf hér á landi. Hjá sumum eru Útlönd einn staður,  	Útlendingar allir klárir, hlutlausir og ráðagóðir nema Göran Persson,  	og ef að einhver Íslendingur segir í kappræðum að eitthvað sé „sagt um okkur  	í útlöndum“, þá svitna sumir landar hans. En ef að það á að fá útlenda  	sérfræðinga til starfa hér, hvernig væri þá að byrja á því að fá erlenda  	lögregluþjóna til að verja þinghúsið og aðrar opinberar byggingar. Og heyra  	svo hvernig „mótmælendum“ líkar. Það er sennilega ekki til það land í  	veröldinni þar sem menn fá slíka silkihanskameðferð og hér. Og allt í lagi  	með það, ekki þurfum við að gera allt eins og Útlendingar.
 
- Samfylkingin er að molna niður. Samt er það hún sem stillir  	„samstarfsflokki“ sínum reglulega upp við vegg. Neitar að vinna að úrlausn  	aðkallandi efnahagsmála nútíðarinnar nema gengið sé að skilyrðum hennar um  	eitthvað allt annað. Og Sjálfstæðisflokkurinn lætur iðulega undan til að ná  	friði. Og aldrei er það launað með friði heldur er alltaf sótt áfram. Og  	aldrei sjá fréttamenn neitt óeðlilegt við kröfugerðirnar. Spyrja ekki einu  	sinni, enginn þeirra, hvort Sjálfstæðisflokkurinn geri einhverjar kröfur  	fyrir sitt leyti. Fréttamönnum gæti varla verið meira sama. Allt snýst um  	hvaða kröfur Samfylkingin geri hverju sinni, hvort þær séu úrslitakröfur og  	hve lengi hún „geti beðið“.
 
- Það er aldeilis gott til þess að vita, á umbrotatímum, að í ríkisstjórn  	sitji flokkur sem bifast fyrir öskrandi stjórnarandstæðingum sem rökstyðja  	mál sit með glamri, málningu og bálköstum. Og að fréttamenn telji þennan hóp  	alltaf jafn merkilegan og fréttnæman. Furðulegt að flokkurinn, sem búinn er  	að lýsa því yfir að hann beygi sig auðmjúkur fyrir þessum hávaðahópi, mælist  	þó enn með 16 % fylgi. Séníin innan flokksins munu eflaust finna út, að  	skýringin á fylgishruninu sé þó ekki undanhaldið heldur það að ekki hafi  	verið hopað enn hraðar, hafi slíkt á annað borð verið mögulegt.
 
- Furðulegt er að horfa á fréttamenn hópast að viðmælanda en spyrja aldrei  	lykilspurninga eins og: Hvers vegna? Hver segir það? Nú var það „þjóðin“ já,  	hvenær gerði hún það? Nú viljið þið gera þetta já, með hvaða heimild þá? Þú  	og hve margir aðrir eru á þessari skoðun? Nei, hversu margir hafa lýst henni  	yfir í eigin nafni en ekki annarra? Og svo framvegis. En fréttamenn mæta  	bara og eru að leita að „stórtíðindum“ og þeim má auðvitað ekki spilla með  	spurningum sem gætu kippt fótunum undan stórtíðindunum. Ef komin er fín  	frétt um að gerð sé tiltekin krafa um að eitthvað verði gert, þá vill enginn  	fréttamaður velta því upp að hugsanlega sé ekki einu sinni lagaheimild fyrir  	því að orðið verði við kröfunni, eða að „þjóðin“ hafi bara alls ekki gert  	slíka kröfu.
 
- Lög og reglur á fjármálamarkaði eru á ábyrgð þingmanna sem einir ákveða  	þær og geta breytt þeim. Ríkisstjórn, sem starfar á ábyrgð alþingis, fékk  	ótal viðvaranir um að illa gæti farið fyrir viðskiptabönkunum en ábyrgð á  	rekstri þeirra sé vitanlega hjá þeim sjálfum en ekki stjórnvöldum. Sama  	gildir um svokallaða peningamálastefnu, sem er ákveðin með samþykki  	forsætisráðherra sem starfar á ábyrgð stjórnarþingmanna. Sumum mun þykja  	ýmislegt af þessu hafa „brugðist“. Þeir hinir sömu krefjast líklega afsagnar  	þeirra stjórnarþingmanna sem allt kjörtímabilið hafa látið þetta allt  	óátalið. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er talin líklegust til þess að  	ríða á vaðið.
 
- Sumum finnst Ragnheiður Ríkharðsdóttir lítill flokksmaður. Það er  	misskilningur. Hún er meiri flokksmaður en flestir, en hún starfar nú í  	sínum þriðja stjórnmálaflokki. Það er meira en flestir aðrir þingmenn geta  	státað af.
 
- Búið er að breyta ljósastaurum í auglýsingapláss. Þar er að verki „nýtt  	lýðveldi“ og þar gilda nýju lögin, sem valinkunnu fagmennirnir munu setja  	okkur. Við vitum bara ekki ennþá hver þau eru. 
 
- Gylfi Magnússon veitti einkaviðtal í Ríkissjónvarpinu í gær. Það  	var kominn tími til. Þöggunin á Gylfa, allan laugardaginn, var svakaleg. En  	nú, loksins, fær fólk að vita hvað Gylfa Magnússyni, dósent, finnst. Og það  	var gott að Vilhjálmur Bjarnason aðjúnkt komst loks að hjá Agli því  	stundum hefur hann ekki komist í Kastljósið því Egill hefur verið þar  	viðmælandi sjálfur en þá hefur Egill jafnvel ekki verið til viðtals á Rás  	tvö alla vikuna og þurft að láta sér nægja þessa tvo vikulegu sjónvarpsþætti  	á kostnað skattgreiðenda.
 
- Hvenær ætla 	 	Vilhjálmur og 	 	Egill annars að ræða það hvaða menn það voru eiginlega sem ráðlögðu  	almenningi að veðsetja sig með myntkörfuláni?
 
- Og svo berast í morgun fréttir um að ofan á forna heift í garð pólitísks  	andstæðings sé draumur um forsætisráðherrastól að setja allt í uppnám,  	þremur mánuðum fyrir kosningar. Þessi furðulega stjórnarkreppa verður æ  	ótengdari almannahag.
 
- Af hverju var Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að mestu hlíft við ádeilu í skemmtiþáttum Ríkissjónvarpsins í vetur, eins og raunar aðra vetur? Jú vitaskuld vegna veikinda hennar, það sér nú hver maður. Og af hverju snerist Spaugstofan síðustu helgi um eintóma árás á Geir Haarde, sem hafði greinst með krabbamein í vikunni? Jú, það er af því að undanfarin 20 ár hefur Ríkissjónvarpið sent út vikulegt stjórnmálaávarp Karls Ágústs Úlfssonar, á besta útsendingartíma hverrar viku. Enn hefur spaugmönnum ríkissjónvarpsins ekki tekist að finna neitt fyndið við framgöngu óeirðamanna eða annarra stjórnarandstæðinga. En stjórnvöld fá reiðilestur í hverjum þætti. Hvorki Samfylkingin né útrásarforsetinn náðu inn í áramótaskaupið heldur.