Helgarsprokið 25. janúar 2009

25. tbl. 13. árg.

S íðustu vikur hafa verið óskemmtilegur tími og margir orðið sér heldur til minnkunar. Fáir hafa reynst jafn bágir í hlutverkum sínum og íslenskir fjölmiðlamenn, sem annað hvort af ístöðuleysi þess meðvirka, eða af hreinum og klárum vilja sínum, hafa látlaust spilað með því liði sem undanfarnar vikur hrópar og kallar, kastar eggjum og slettir málningu.

Hefur einhver íslenskur fréttamaður, sem þykjast vera hlutlausir og gera öllum jafnt undir höfði, spurt einhvern „mótmælanda“ einhverrar gagnrýnnar spurningar síðustu mánuði? Hafa fjórir mánuðir dugað nokkrum fréttamanni til að spyrja herði torfasynina hvernig það hafi gerst að þeir tali í umboði „þjóðarinnar“? Hvenær og hvernig fól þjóðin herði og félögum að tala fyrir sína hönd? Hvenær og hvernig krafðist hún þess að alþingi yrði rofið, eignir manna frystar eða gripið til annarra þeirra ráðstafana sem herðirnir krefjast í sífellu, með mismiklum rökum, en jafnan í hennar nafni?
 

  • Þegar stjórnarandstæðingar hafa, í ótal viðtölum, upplýst að það sé ekki hægt að komast hjá kosningum, hefur þá einn einasti fréttamaður spurt hvers vegna ekki verði hjá þeim komist? Og, þegar á móti hefði komið frasinn um að þjóðinni fyndist þetta eða hitt, er einhver fréttamaður líklegur til að hafa spurt hvenær hún hefði látið það í ljós?
     
  • Ímyndi menn sér hins vegar að einhver stjórnarliði dirfðist að bera þjóðina fyrir einhverju. Dettur einhverjum í hug að til sé fréttamaður, sem ekki myndi skyndilega minnast skyldu sinnar til að „efast um allt“?
     
  • Hefur einhver fréttamaður einhvern tíma kallað þá skemmdarvarga og ólátabelgi, sem undanfarnar vikur hafa verið áskrifendur að fréttatímaplássi, annað en „mótmælendur“?
  • Ef einhverjum dytti í hug að mála útvarpshúsið að utan til að mótmæla fréttaflutningi þess, og mæta með trommusett fyrir utan og gera slíkan hávaða að inni væri ekki vinnufriður, ætli einhverjum dytti í hug að það væru bara lýðræðisleg mótmæli?
     
  • Ætli það sé tilviljun að óeirðaseggir hafi í eitt tilviki boðist til að bæta skemmdir sem þeir hafi valdið? Það var þegar eigur Stöðvar 2 skemmdust. Þeir vita hverja þeir hafa með sér og þurfa að hafa með sér.
     
  • Hefur einhver fréttamaður svo mikið sem velt fyrir sér hvort það séu „friðsöm mótmæli“ að gera slíkan hávaða, samfellt, að fólk fái engan frið inni í húsum margar götur frá. Það er ekki einu sinni spurt að því, bara fullyrt að „mótmælin séu friðsöm“.
     
  • Í Heimdalli eru milli fjögur og fimmþúsund manns. Ef að þeir, sem þar eru, lýstu því yfir, fyrir hönd þjóðarinnar, að þeir treystu ekki ríkisstjórn sem Samfylkingin sæti í, og myndu þess vegna standa á Austurvelli með trommusett og hljóðkerfi á hæsta styrk þar til Samfylkingin léti af öllum völdum, ætli fréttamenn myndu láta Heimdellingana fá sömu silkihanskameðferð og herðirnir fá?
     
  • Þeir sem telja útifundarmenn og hávaðaframleiðendur á götum úti vera menn sem verði að koma til móts við, svo „sátt geti náðst”, eru þeir tilbúnir að gera það að almennri reglu? Á sami hópur þá framvegis að geta skipt um ríkisstjórn og embættismenn, eða bara núna? Má jafnstór hópur síðar gera sambærilegar kröfur og fá þá sambærilega meðferð?
     
  • Hefur nokkur fréttamaður birt mynd af þjóðþekktum rithöfundi þar sem hann lemur tryllingslega í rúður á bifreið forsætisráðherra?
     
  • Þegar gefin verða út á bók, helstu stóryrði íslenskra bloggara undanfarnar vikur, með sérkafla um stóryrði fjölmiðlamanna, ætli allir verði þá stoltir af framlagi sínu til umræðunnar?
     
  • Þeir sem mestar áhyggjur þykjast hafa af því að einhverjir „njóti ekki trausts“, hvað hafa þeir gert til að byggja upp það traust? Með því að rengja allt nema gagnrýni, leggja allt út á versta veg, taka engin svör gild, trúa engu nema samsæriskenningum, krefjast sviptingar eigna án dóms og laga. Meira að segja krabbameinsgreining forsætisráðherra var að sögn Harðar Torfasonar Þjóðar, „pólitísk reykbomba“ sem einhver „við“ taka ekki mark á.
     
  • Hvenær ætlar einhver að benda á hversu fámennir þeir eru, útifundirnir sem herðirnir þykjast halda í nafni þjóðarinnar. Ef að ástandið væri í raun eins og því er lýst í ræðum og fréttatímum, þá væru slíkir fundir margfalt margfalt fjölmennari. Það mættu fimmtánþúsund manns til Ómars Ragnarssonar vegna virkjana og var aðeins auglýst í fréttum og kastljósi á einu kvöldi. Það mættu fimmtán þúsund á rútudaginn. Það mæta sextíuþúsund í „gleðigönguna“. Það mæta þrjátíuþúsund á fiskidaginn mikla. Hundrað þúsund á menningarnótt. Herðirnir hafa mest fengið til sín fimmþúsundmanns, samkvæmt talningu Harðar Torfasonar, og alltaf halda fréttamenn að stórtíðindi hafi orðið.
     
  • Gasprarar áttu ekki orð yfir þeirri ábendingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að þeir sem töluðu á fundum gerðu það í eigin nafni en ekki þjóðarinnar. Þeir sem mættu á slíka fundi væru ekki þjóðin heldur bara þeir sjálfir. Þetta þótti ofboðslegur hroki. En hvað má segja um hroka þeirra sem telja sig hafa umboð til að túlka skoðanir bláókunnugs fólks sem það hefur aldrei á ævinni heyrt eða séð.
  • Hefur einhver fjölmiðill einhvern tíma rætt tengsl forystumanna vinstrigrænna við skrílslætin á götunum.
     
  • Beinar útsendingar, að ekki sé talað um innslög í dagskrá, til að sýna hvar „fólk er byrjað að safnast saman“, eru í raun frekar herútboð fyrir þá sem eru að leita sér að hasar þar sem enginn ber ábyrgð, en fréttamennska.
     
  • Hver nam stjórnarskrána úr gildi og hvers vegna? Hvaðan kemur allt fimbulfambið um „stjórnlagaþing“?
     
  • Þeir sem halda að þeir standi í byltingu gegn ógnarstjórn, menn sem virðast halda að þeir séu Havel, af hverju fara þeir ekki til einhvers raunverulegs ógnarríkis og sýna þar dirfsku sína? Á Íslandi geta menn sér að refsilausu borið eld og úrgang á alþingi og lögreglumenn, sjúkrabílar eru á staðnum til að hreinsa árásarmenn strax og koma þeim aftur í slaginn, og fréttamenn, sem jafnan taka málstað æsingamannanna, hafa aðallega áhuga á því hvort lögreglan sé með ofbeldi og ofstopa.
     
  • Hefur einhver fjölmiðill spurt formann BSRB hvort hann fordæmi afdráttarlaust þá sem ráðast að lögreglunni? Menn mega ekki halla orði á aðrar stéttir hins opinbera, en formaður BSRB hefur enn ekki sagt aukatekið orð til varnar lögreglumönnum.
     
  • Hefur einhver fjölmiðill, einhvern tíma, reynt að taka saman hvað það eru margir, samtals, sem hafa lýst einhverri þeirra fjöldamörgu skoðana sem þjóðin er borin fyrir, í æsingaræðunum.
  • Grímur fyrir andliti. Er einhver sem ekki þekkir það sem hátíðarbúning glæpamanna?
     
  • Hefur einhver gert athugasemdir við það að sumir þeirra ágætu manna, sem stýra umræðuþáttum ríkisfjölmiðlanna, og velja bæði umræðuefni og þátttakendur, eru sjálfir ákafir þátttakendur í þjóðfélagsumræðu á netinu og spara þar ekki stóryrðin? Hafa greinilega ákaflega sterkar skoðanir sjálfir á einstaka mönnum og málefnum. Út af fyrir sig er ágætt að fólk viti með þessum hætti hvar það hefur þessa menn og að þeir séu ekki að gera sér upp hlutleysi. Sumar skoðanir þessara manna geta verið ágætar, þó aðrar séu það mun síður, eins og gengur. En ímyndi menn sér nú að þessir þáttastjórnendur væru ákafir talsmenn gagnstæðra sjónarmiða. Að þeir töluðu til dæmis fast gegn uppþotum, sleggjudómum og múgæsingu. Fjórir af hverjum fimm viðmælendum þeirra væru sömu skoðunar. Ætli þá yrði eitthvað sagt um þáttastjórn þeirra? Ætli þá yrði sagt að menn yrðu að velja milli þess að stýra umræðuþáttum í ríkisfjölmiðlum og þess að vera opinberir baráttumenn pólitískra sjónarmiða?
     
  • Margur verður af aurum api, er stundum sagt í þeim skilningi að ekki verða allir betri menn af því að efnast. En hvernig verða menn af því að tapa aurum sínum, hvort sem átt er við fyrrverandi „auðmenn“, eða bara þá sem telja aðra en sjálfa sig bera ábyrgð á myntkörfuláninu sínu?
     
  • Ætli það sé gaman að sitja í ríkisstjórn með Samfylkingunni?