Laugardagur 24. janúar 2009

24. tbl. 13. árg.

N ú er upp runninn dagur sem Vefþjóðviljinn hefur beðið eftir í tólf ár. Og hvers vegna hefur hann beðið hans öll þessi ár? Jú, því það er svo gaman að verða tólf ára. Í dag eru tólf ár frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst og af því tilefni vill hann þakka lesendum sínum samfylgdina þessi ár. Sérstaklega þakkar hann þeim ágætu lesendum sem hafa létt honum lífið um dagana með ofurlitlum fjárframlögum, en allur kostnaður við útgáfuna og kynningu á henni er greiddur með frjálsum framlögum.

Á þeim tímum sem nú ríkja, þar sem ofsa, ósanngirni og fjarstæðum er beitt af mikilli hörku í þjóðmálabaráttunni, er mikilvægara en oft áður að frjálslyndir menn láti til sín heyra og haldi sjónarmiðum sínum hátt á lofti, svo öskraðir órar verði ekki að viðteknum sannindum í landinu þar sem ekki starfa lengur fréttamenn heldur einkum innlifaðir áróðursmenn. Margt hefur breyst á Íslandi frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst. Margt var gert í rétta átt, þó opinber útgjöld hafi vaxið of mikið – þó stjórnarandstaðan teldi þau alltaf of lág á öllum sviðum nema til lögreglunnar – og innleitt hafi verið mikið regluverk og opinbert eftirlit á ýmsum sviðum, ekki síst á fjármálamarkaði. Engu að síður hefur efnahagslegur uppgangur verið mikill og lífskjör, og lífsgæðakröfur, alls þorra manna gerbreyst.

En aðrar breytingar sem orðið hafa upp á síðkastið hafa ekki verið eins ánægjulegar. Hreint og klárt skrílræði virðist af og til brjótast út, með stuðningi fjölmiðlamanna sem oft birtist í hreinni misnotkun fjölmiðla, en við hartnær uppgjöf þeirra sem stýra eiga landsmálum. Það er alveg efalaust að þegar síðar verður horft til baka munu margir vilja gleyma orðum sínum og gerðum á þessum tíma – og ekki síður munu margir vilja forðast spurningar um það hvernig þeir sjálfir hafi brugðist við. Hvernig brást þú við, sagðir þú eitthvað, á hvaða verði varst þú tilbúinn að kaupa frið við óeirðamenn? Sastu þegjandi undir æsingi og ósanngjörnum ásökunum? Hvikaðir þú eða varst fastur fyrir? Eða vildir þú bara losna við þessi leiðindi?

En á afmælisdegi á að hugsa um eitthvað annað. Til dæmis súkkulaðiköku með sætu kremi og tólf kertum. Helst með lakkrísbitum en rjómi ófrávíkjanlegt skilyrði. Allir að baka eina í kvöld.