Föstudagur 23. janúar 2009

23. tbl. 13. árg.

S teingrímur J. Sigfússon, formaður VG, var ásamt forsætisráðherra, Geir H. Haarde, í Kastljósi Ríkissjónvarpsins síðastliðið miðvikudagskvöld. Það var athyglisvert að hvorki leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu né þáttastjórnandi minntust á Evrópusambandið. Enginn veitti því athygli og enginn saknaði þess.

Það kom kannski ekki beint á óvart að þegar Steingrímur var spurður beint hvaða aðrar lausnir hann sæi á efnahagsvandaþjóðarinnar en þær sem ríkisstjórnin hefur boðað, þá varð fátt um svör. Athygliverðara var þegar hann var spurður hvernig hann rökstyddi það, að koma Sjálfstæðisflokki einum flokka frá, þegar þrír stjórnmálaflokkar hafa setið í ríkisstjórn á þeim tíma sem efnahagsstefna undanfarinna ára var mótuð, og mynda bráðabirgðastjórn með hinum tveimur flokkunum, myndi leysa hinn aðsteðjandi vanda og koma til móts við meintar kröfur almennings um breytingar. Sérstaklega í ljósi þess að Sjálfsstæðisflokkur og Samfylking hafa verið samstíga í mótun þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin nú fylgir. Framsóknarflokkurinn fór líka lengst af með jafn mörg ráðuneyti og Sjálfstæðisflokkurinn í samstarfi þeirra flokka og sá alla tíð umráðuneyti bankamála. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki stýrt því ráðuneyti síðan Matthías Bjarnason gerði það 1985 til 1987 án þess að hér sé sagt að það hafi eitthvað sérstakt vægi um heildarábyrgðina á því ástandi sem hér er.

Steingrímur svaraði  hreint út, án málalenginga, að hann vill skila láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vegna þeirra „þvingunarskilyrða“ sem því fylgja. Í því felst væntanlega að Steingrímur J., sem forsætisráðherra, myndi neita að gangast í ábyrgð fyrir Icesave reikningana. Það þjónar reyndar hagsmunum VG ágætlega, því það er lítil hætta á miklum árangri í aðildarviðræðum um inngöngu í ESB undir slíkum kringumstæðum. Sem kunnugt er tróð ESB alveg nýrri túlkun á tilskipun sambandsins um innistæðutryggingar ofan í kokið á ríkisstjórn Íslands þegar í ljós kom að allt fjármálakerfi álfunnar gat farið um koll ef fyrri skilningur fengi að standa. Og hversu trúverðugt er það að Samfylkingin myndi fallast á slíkt í ljósi þess hún vildi endilega fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að málum hér og að helsta baráttumál Samfylkingarinnar er að koma Íslendingum sem fyrst inn í ESB. „Sátt“ við ESB um Icesave er augljós forsenda þess. Það sem var þó athygliverðast við þetta viðtal allt saman var samtektin á því í seinni fréttum RÚV. Fyrirsögnin var ekki: „VG án lausna í efnahagsvandanum“ eða „Steingrímur J vill skila láni AGS“. Nei, fyrirsögnin var: Stjórnarkreppa.

Var enginn á fréttastofunni að hlusta á Kastljós fyrr um kvöldið? Eða voru menn kannski á kaldhæðinn hátt að lýsa því ástandi sem skapast myndi færu Samfylking og VG í eina sæng með vernd Framsóknar?