Þriðjudagur 27. janúar 2009

27. tbl. 13. árg.

H vernig eru Samfylkingarheilindi í fáum orðum? Þau eru svona: Síðustu alþingiskosningar urðu veruleg vonbrigði fyrir Samfylkinguna. Þrátt fyrir tólf ára stjórnarandstöðu, ákafa baráttu, gríðarlegan fjáraustur og verulega velviljaða fjölmiðla, þá tókst Samfylkingunni undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem hafði tveimur árum áður fellt svila sinn úr formannssæti beinlínis til þess að tryggja mikinn kosningasigur, að tapa fylgi en þáverandi ríkisstjórn hélt velli. Samfylkingin stefndi í algera upplausn og stjórnmálaferill Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur norður og niður. En hvað gerðist? Komu ekki Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á hvítum hestum, kipptu Samfylkingunni inn í ríkisstjórn og björguðu pólitísku lífi hennar og formanns hennar. Og hvernig launar Samfylkingin lífgjöfina? Með samfelldri kröfugerð á hendur „samstarfsflokknum“. Með því að taka aldrei upp hanskann fyrir hann, hvar sem á hann er sótt. Með því að krefjast stefnubreytinga hans í stórum málum en bjóða enga stefnubreytingu sjálf. Með því að vera með fyrrverandi formann hans á heilanum og nýta til hins ýtrasta að hann gat ekki varið hendur sínar en var jafnframt undir stöðugum árásum hluta fjölmiðlanna. Með því að grípa tækifærið, þegar hún heldur að „samstarfsflokkurinn“ standi illa, og krefjast þá kosninga. Þegar þeim hefur verið lofað, þá er þess krafist að fá forsætisráðuneytið afhent, þremur mánuðum fyrir kosningar. Það er gefin sú skýring að formaður „samstarfsflokksins“ sé svo lélegur forsætisráðherra að það sé ekki hægt að notast við hann síðustu vikurnar fram að kosningum. Það verði að henda honum niðurlægðum út, og í kaupbæti gera það innan við viku eftir að hann greinist með krabbamein. Og þegar hann býður varaformann sinn, Þorgerði Katrínu, fram í staðinn, þá er svarað með kröfu um… Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta eru Samfylkingarheilindi í fáum orðum. Þakki menn fyrir að fá þau ekki í mörgum.

  • Ólafur Ragnar Grímsson hélt því fram í gær, að nú hefði forsætisráðherra ekki lengur þingrofsrétt sinn, heldur væri hann kominn í greipar Ólafs Ragnars Grímssonar. Þetta er enn einn „misskilningurinn“ hjá Ólafi, og kemur það auðvitað flestum alveg í opna skjöldu að Ólafur Ragnar vilji draga til sín völd umfram það sem stjórnarskrá og hefðir segja. Á hverjum tíma situr ein ríkisstjórn, með fullum völdum. Forsætisráðherra hefur óskoraðan þingrofsrétt og heldur honum þar til rétturinn flyst til eftirmanns hans. Lagalega hefur ríkisstjórn alveg sama rétt og áður, þó hún biðjist lausnar. Hugtakið „starfsstjórn“ er pólitískt en ekki stjórnskipunarlegt. Þess vegna er það misskilningur að tala um „starfandi forsætisráðherra“, eins og fréttamenn gerðu hver á fætur öðrum í gærkvöldi. Geir H. Haarde er enn forsætisráðherra með öllum réttindum og skyldum. Og meðal annars þess vegna munu menn gæta þess að fara hratt í gegnum handritið.
     
  • Menn hefðu átt að hlæja meira að því þegar einhver pólitískur viðvaningur nefndi í fyrra að hugsanlega væri rétt að mynda þjóðstjórn. Að vísu hefðu menn þá kannski sloppið við óeirðir, sundrungu, stjórnarslit og vinstristjórn, en misst af öllu hrósinu fyrir að hafa sagt þessum vitleysingi að þegja.
     
  • Forseti Íslands hélt tölu í gær. Nú var komið að því að hann taldi rétt að stilla til friðar í þjóðfélaginu. Hið virta sameiningartákn þjóðarinnar hefur ekki séð neina ástæðu undanfarnar vikur að biðja neinn um að gæta hófs og öryggis annarra í framgöngu eða fara að minnsta kosti að lögum og reglum. En nú er búið að ganga frá því að Sjálfstæðisflokknum verði fleygt úr ríkisstjórn og þá þarf ekki að mótmæla fleiru. Óneitanlega kemur nú tvennt í hugann. Muna menn eftir REI-málinu skemmtilega, þar sem himinn og jörð voru að farast og hnefar voru steyttir á borgarstjórnarfundum – allt þar til búið var að flæma Sjálfstæðisflokkinn úr ráðhúsinu? Alveg um leið varð þá mikilvægast „róa umræðuna“. Eða stjórnarslitin 1988, þar sem Þorsteini Pálssyni og Sjálfstæðisflokknum var skyndilega hent úr ríkisstjórn af því að ekki náðist samstaða um efnahagsaðgerðir. En um leið og ný ríkisstjórn var komin á koppinn, þá minnkaði nú heldur þörfin á aðgerðum. Og hverjir spunnu vefinn bak við tjöldin nema Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur J. Sigfússon. Sá síðarnefndi gengur nú um bæinn sem fulltrúi nýrra tíma.
     
  • Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er sérstakur fulltrúi endurnýjunar á Íslandi. Hans fyrsta verk er að leiða til valda Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Steingrímur varð fyrst ráðherra árið 1988 og hefur verið á þingi frá 1983. Jóhanna varð fyrst ráðherra 1987 og hefur verið á þingi samfleytt frá 1978. Nýir vendir sópa best. Sigmundur telur sig best tryggja endurnýjun með því að setjast ekki einu sinni í stjórn með þeim sjálfur, heldur sitja bara heima hjá sér en lofa þeim Steingrími og Jóhönnu stuðningi þaðan.
     
  • Nú verður ekki friður fyrir fyndnum og kaldhæðnum bloggurum. Þessir sömu og hafa talað látlaust um að fjármálaráðherra sé dýralæknir geta nú aldeilis skemmt sér þegar nýja ríkisstjórnin tekur við. Ætli jarðfræðingurinn Steingrímur, flugfreyjan Jóhanna eða leikkonan Kolbrún fái ekki örugglega sömu hrokafullu meðferðina?
     
  • Eins og venjulega þegar Ólafur Ragnar Grímsson er annars vegar, má treysta því að einhver mæti í fréttir og telji að völd þau, sem stjórnarskráin lætur ráðherra fara með fyrir hönd forseta, séu í raun til persónulegra nota fyrir Ólaf Ragnar Grímsson en ráðherra eigi það svo undir velvilja Ólafs hvort eitthvað verði gert. Þannig var því til dæmis strax haldið fram í gær að forsetinn réði sjálfur einhverju um það hvort þingrof yrði að tillögu forsætisráðherra. Ætli ekki komi einhvern tíma fram sú kenning að árið 1974 hafi næstum því verði búið að samþykkja vantraust á ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar þegar tígrisdýrið Kristján Eldjárn hafi skyndilega ákveðið að rjúfa þingið, Ólafi til mikillar furðu.
     
  • Tóku menn ekki eftir því hvernig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svaraði þegar hún var í fyrrakvöld spurð, fyrir utan heimili Geirs Haarde, hvort Samfylkingin hefði rætt stjórnarmyndun við aðra flokka? Nei sagði hún og vandaði sig, „ég“ hef ekki átt í slíkum viðræðum. Ekki orð um aðra forystumenn Samfylkingarinnar og enginn fylgdi spurningunni eftir, svo sem með einfaldri spurningu um hvort hún vissi um eða hefði leyft viðræður annarra.
     
  • Ef að forsetaframbjóðandinn Ólafur Ragnar Grímsson hefði svarað á sínum tíma, þegar hann var spurður hvernig hann myndi standa að stjórnarmyndunum ef hann yrði kjörinn forseti, að hann myndi í upphafi tilkynna hvaða atriði hann sjálfur legði mesta áherslu á í stefnu væntanlegrar ríkisstjórnar og myndi svo velja þá flokka sem líklegastir væru til að ná þeim fram, hversu margir ætli hefðu kosið hann þá?
     
  • Steingrímur J. Sigfússon bauð upp á þjóðstjórn í fyrradag. Hann varð að losna frá því boði í gær. Hann fór þá leið að segja að ummæli fráfarandi ráðherra hverra um aðra væru ekki nógu vingjarnleg. Svona eins og hann, sem nýgræðingur í stjórnmálum, hefði daginn áður búist við því að stjórnarsamstarfinu lyki á gagnkvæmum ástarjátningum. Fréttamenn fóru strax rétta leið og lögðu þunga áherslu á að milli fráfarandi stjórnarflokka hefði verið „stórskotahríð“ í gær. Hingað til hafa menn getað myndað ríkisstjórn beint ofan í langa og harðvítuga kosningabaráttu. Nú þykist Steingrímur ekki geta myndað þjóðstjórn, af því að einhverjir hafi verið harðir í tali, fyrstu mínúturnar eftir að stjórnarsamstarfi lauk.
     
  • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hamraði á því, fyrr í þessum mánuði, að ef Sjálfstæðisflokkurinn stigi ekki stór skref frá fyrri stefnu sinni í Evrópumálum á næsta landsfundi þá yrði brátt um stjórnarsamstarfið, því það gengi ekki að stjórnarflokkar hefðu ekki sömu „sýn“ í þeim málum. Verkin sýna merkin og nú er hún á leið í stjórnarsamstarf með… Vinstrigrænum. Og hvað margir fréttamenn hafa rifjað upp þessi nýlegu viðtöl, sem þóttu nú aldeilis fréttnæm fyrir fáum dögum? En þá héldu fréttamenn að vísu að þau gætu spillt fyrir ríkisstjórn sem þeir vildu ekki að sæti. Nú mega þau ekki spilla fyrir ríkisstjórn sem þeir vilja fá.
     
  • Geir H. Haarde hefur enn óskorað vald til að rjúfa alþingi og boða til kosninga. Vefþjóðviljinn hefur hingað til verið heldur spar á beinar ráðleggingar til ráðamanna, en gerir nú undantekningu. Geir, viltu ekki bara nýta þennan rétt í dag? Þó ekki væri nema til að sjá Steingrím Joð og þau engjast í örvæntingarfullri leit að rökum gegn kosningunum sem þau hafa æpt á undanfarna mánuði. En þú verður þá að drífa þig, því að búið er að ákveða alla atburðarásina og hún mun ganga hratt.
     
  • Reiði kastljósstjórnandinn sagði við Geir Haarde í gærkvöldi að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki sjálfum sér samkvæmur, úr því hann hefði varað við stjórnarkreppu en gengi svo ekki að skyndilegri kröfu Samfylkingarinnar um forsætisráðherraembættið. Þar hlyti Sjálfstæðisflokkurinn að hafa tekið flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhag, ef hann hefði í alvöru verið á móti stjórnarkreppu. Því miður hélt stjórnandinn ekki lengra með þessa kenningu sína, því skemmtilegt hefði verið að vita hvar henni lyki. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki með sömu rökum átt að gefa eftir fleiri ráðuneyti, jafnvel öll, til að taka ekki „flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhag“?
     
  • Innan skamms verður Sjálfstæðisflokkurinn utan stjórnar. Hvernig munu fjölmiðlamenn bregðast við ef ungir sjálfstæðismenn standa þaðan í frá hundruðum saman fyrir utan þinghúsið og berja saman eldhúsáhöldum svo ekki heyrist mannsins mál innandyra? Fá þeir þá daglegar fréttir þar sem aldrei heyrist ein einasta gagnrýnin spurning? Eða ef þeir halda „borgarafundi“ í Háskólabíó, og velja þar sjálfir alla ræðumenn sem rægja nýju ríkisstjórnina linnulaust, mun Ríkisútvarpið þá ekki örugglega senda fundina út? Eða mun Ríkisútvarpið bara taka að spyrja hver borgi alltaf leiguna á bíóinu?
     
  • Þeir sem telja að Samfylkingin sé stjórntækur flokkur, sem ræður við alvarlega tíma og hvikar ekki fyrir þrýstingi, eru beðnir um að rétta upp hönd. Nei, hönd. Hönd. Já einmitt, fálmarana sem standa út úr búknum, einn við hvora öxl. Rétta hana upp, takk fyrir. Nei, upp.