Miðvikudagur 28. janúar 2009

28. tbl. 13. árg.

Í gær var hér fjallað um Samfylkingarheilindi eins og Sjálfstæðisflokkurinn fékk að kynnast þeim í hálft annað ár. Næstu gestir Samfylkingarinnar verða vinstrigrænir og eru rétt að ganga í hús. Af hverju ætli Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi strax í upphafi viðurkenndra viðræðna boðað að Jóhanna Sigurðardóttir yrði í forsæti ríkisstjórnar? Það er til að hindra frá upphafi að Steingrímur J. Sigfússon geti orðið forsætisráðherra. Ingibjörg hefur ekki tök á því sjálf að leiða stjórnina. Þá var stór hætta á því að Steingrímur J. Sigfússon yrði næstur í röðinni, og þá er Jóhönnu teflt fram, í þeirri von að vinstrigrænir þori ekki að biðja um sinn formann gegn konunni, sem er vinsæl meðal vinstri manna, enda lagðist hún síðast gegn ríkisútgjöldum þegar hún greiddi atkvæði gegn gamla sáttmála. Það liggur fyrir, að Samfylkingin telur ekkert atriði að forsætisráðherra komi úr stærri stjórnarflokknum, það sem skipti máli sé að hann sé „verkstjóri“ og haldi mönnum saman. Og Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi varaformaður Alþýðuflokksins og formaður Þjóðvaka, er þar tekin fram yfir Steingrím J. Sigfússon. Af hverju er ekki stungið upp á Steingrími J. Sigfússyni? Hvers vegna þykir hann minni verkstjóri, minni mannasættir og minni samningamaður en Jóhanna Sigurðardóttir?

Það, hve lítil alvara er á bak við að Jóhanna Sigurðardóttir sitji í forsæti, sést best á því hverjir koma að stjórnarmyndunarviðræðum fyrir hönd Samfylkingarinnar. Það eru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson, Lúðvík Bergvinsson og Skúli Helgason. Eins og eitthvert raunverulegt forsætisráðherraefni sæti bara heima hjá sér og léti flesta aðra flokksmenn um að mynda ríkisstjórnina sína og ákveða hvað hún eigi að hafast að.

  • Það er víst ekki sama Jón og séra Jón. Það varð einstakur atburður á Bessastöðum í gær. Formaður stjórnmálaflokks, sem þangað var kominn til að taka við stjórnarmyndunarumboði úr hendi forseta Íslands, fór með forsetanum á blaðamannafund. Þegar forsetinn hafði svarað nokkrum spurningum var flokksformanninum nóg boðið, greip orðið og mælti: „ég bið forláts að ég trufla þennan málfund, en ég held að við ættum að fara af vettvangi og koma okkur að störfum.“ Gekk svo út með Steingrími J. Sigfússyni. Ímyndi menn sér nú að einhver annar stjórnmálaleiðtogi hefði farið svona að. Hvernig ætli fréttamenn og álitsgjafar létu? Ætli það yrði talað um hroka, óvirðingu við forseta Íslands og jafnvel ýjað að því að viðkomandi væri ekki með réttu ráði. Eða svo aðstæður séu endurteknar: Formaður stjórnmálaflokks er kominn á Bessastaði, þiggur þar stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands, fer með forsetanum á blaðamannafund, og þegar forsetinn er að svara blaðamönnum þá grípur viðkomandi inn í, kallar tal forsetans „málfund“, og fer. Og enginn segir neitt.
     
  • Eins og menn muna einkenndist flokksþing Framsóknarflokksins af mistökum og röngum tilkynningum. Fyrst var ranglega tilkynnt að Höskuldur Þórhallsson hefði sigrað í formannskjöri. Svo var það leiðrétt eftir að í ljós kom að hann hafði lent í öðru sæti. Næst var tilkynnt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Nú hefur það verði leiðrétt, en Sigmundur reyndist ekki hafa verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins heldur stimpilpúði vinstriflokkanna.
     
  • Í gær byrjuðu fjölmiðlar í fyrsta sinn að velta því fyrir sér hvort yfirleitt væri hægt samkvæmt lögum, og þá hvernig, að segja embættismönnum eins og bankastjórn seðlabankans upp störfum. Hefðu nú ýmsir getað haldið að tilefni hefði gefist til slíkra vangaveltna fyrr, miðað við áhugann sem Samfylkingin, Hörður Torfason, Fréttablaðið og fleiri hafa sýnt á því málefni undanfarna mánuði. Á þögninni um þetta álitamál gæti hins vegar verið skýring. Ætli það gæti nú ekki verið, að á þeim tíma sem fréttamenn töldu að þessi krafa gæti nýst til að knýja fram stjórnarslit, eða að minnsta kosti til að koma illu af stað milli stjórnarflokka, þá hafi engu mátt velta upp sem gæti gefið fólki til kynna að þetta brýna framfaramál væri kannski ekki framkvæmanlegt jafn auðveldlega og látið var liggja að á útifundum. Að á þeim tíma hafi orðið að láta eins og ekkert gæti verið þessu til fyrirstöðu. Nú megi hins vegar velta þessu fyrir sér, án þess þó að sjálfsögðu að spyrja Samfylkinguna nokkurn tíma um þau efnisatriði sem að baki búi.
     
  • Annars verður skemmtilegt þegar siðvæðingarflokkarnir, sem mest hafa talað um pólitískar ráðningar, láta pólitískan brottrekstur verða sitt fyrsta verk.
     
  • Ágúst Ólafur Ágústsson, hægri hönd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hefur ákveðið að láta af þýðingarmiklum störfum sínum í þágu Samfylkingarinnar. Sendi hann frá sér yfirlýsingu, þar sem segir meðal annars: „Nýliðna helgi ræddi ég við formann Samfylkingarinnar og skýrði henni frá því að ég hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri til Alþingis í kosningunum í vor. Af þeirri ástæðu greindi ég henni jafnframt frá því að ég myndi ekki sækjast eftir ráðherraembætti vegna þeirra breytinga sem fyrir lágu.“ Eins og fréttavefurinn AMX benti á, virðist mega skilja þetta sem svo, að Samfylkingin hafi síðustu helgi verið búin að ákveða stjórnarslit og nýja ríkisstjórn.
     
  • Árni Þór Sigurðsson er spekingur eins og menn vita. Í kastljósi gærkvöldsins var hann mættur og talaði fyrir þeirri kröfu vinstrigrænna að frysta eignir auðmanna, eins og það er gjarnan kallað. Árni Þór var spurður um þá skoðun hagfræðings og tveggja hæstaréttarlögmanna að tillögurnar væru lýðskrum. Árni Þór taldi þær sko ekkert lýðskrum. Að vísu væru margir fagmenn efins um „lagalegan grundvöll þeirra, þetta þekkjum við. Það er hins vegar mikil krafa úti í samfélaginu að það sé gætt réttlætis í tengslum við þá atburði sem að hér urðu í haust og ég held að ef að þú færir og spyrðir almenning í þessu landi hvað væri rétt og sanngjarnt í þessu máli að þá fengirðu hugsanlega önnur viðbrögð“. Sem sagt, ekkert lýðskrum hér á ferð.
     
  • „Eftirlaunalögin“ verða eitt af því sem Árni Þór og félagar munu ræða við stjórnarmyndunina. Má þá minna á eitt lítið atriði. Lagabreytingin á sínum tíma, sem einhverra hluta vegna er enn kölluð „eftirlaunafrumvarpið“, hafði ýmsar breytingar í för með sér á kjörum forseta Íslands, þingmanna og ráðherra. Ein þeirra var um sérstaka greiðslu til formanna stjórnarandstöðuflokkanna, og nemur hún nú 260.000 krónum á mánuði, eftir að hún lækkaði um síðustu áramót. Á síðasta ári voru gerðar ýmsar breytingar á því sem ákveðið hafði verið með „eftirlaunafrumvarpinu“, en einhverra hluta vegna lagði stjórnarandstaðan enga áherslu á að þessi hluti yrði felldur út. Á þeim sextíu mánuðum eða svo, síðan „eftirlaunafrumvarpið“ varð að lögum, hefur breytingin fært Steingrími J. Sigfússyni þessa fjárhæð aukalega um hver einustu mánaðamót. Á það er aldrei minnst, ekki frekar en þá staðreynd að sá fyrrverandi stjórnmálamaður, sem jafnan er níddur vegna laganna, hefur aldrei þegið krónu af þeim eftirlaunum sem hann á rétt á vegna þeirra.
     
  • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var í gærkvöldi spurð að því hvenær alþingiskosningar ættu að fara fram. Kom þá á daginn að ekkert hafði verið rætt um það. „Ætli það sé nú nokkuð aðalatriði í þessu sambandi“, svaraði hún í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins og við hlið hennar stóð Steingrímur J. Sigfússon og sagði ekki orð. Já, það var einmitt svona sem var talað fyrir helgi, var það ekki? Ekki þarf að taka fram að fréttamenn sáu ekki ástæðu til að fylgja þessu eftir heldur fóru beint í næsta mál.
     
  • Og að lokum: Geir, þú hefur enn fullt og óskorað vald til þess að rjúfa þing. Viltu ekki bara nýta það í dag? Höfum við ekki margítrekuð orð vinstrimanna fyrir því að „þjóðin“ krefjist kosninga?