Fimmtudagur 29. janúar 2009

29. tbl. 13. árg.

V instri grænir hafa löngum haft horn í síðu stórfyrirtækja, ekki síst alþjóðlegra, sem raka saman auði yfir lönd og álfur. Í Kastljósi gær mátti hins vegar sjá einn þeirra, Sigurstein Másson, kynntan til leiks sem sölufulltrúa fyrir alþjóðlega stórfyrirtækið International Fund for Animal Welfare. Fyrirtæki þetta selur almenningi góða tilfinningu. Þú getur setið heima í leðursófanum og keypt þér lausn synda þinna og meðbræðra þinna gagnvart dýrum. Donate now. Fyrirtækið var stofnað fyrir fjörutíu árum til að selja glampann úr barnslegum selsaugum í Kanada. Það reyndist frábær viðskiptahugmynd þótt hún hafi að vísu leitt til þess að selir séu nú plága í lífríkinu. En framlögin frá fólkinu heima í stofu halda áfram að berast því tækifærin eru endalaus á þessu sviði. Eins og sjá mátti í Kastljósinu í gær þar sem sölumaður fyrirtækisins bauð björgun hvala frá sjálfbærri nýtingu, þó ekki endilega dýranna vegna, heldur vegna fólksins í sófasettunum í Evrópusambandinu. Það má ekki fá ónot.

Ö ssur Skarphéðinsson telur mjög óeðlilegt að sjávarútvegsráðherra leyfi veiðar á langreyði, skömmu fyrir ríkisstjórnarskipti. Það er nefnilega nauðsynlegt að hafa festu og samfellu.

Össur Skarphéðinsson hefur tekið mjög virkan þátt í að skipta um ríkisstjórn, þremur mánuðum fyrir alþingiskosningar.

Raunar eru þessi stjórnarskipti alveg með ólíkindum. Menn voru orðnir ásáttir um þingkosningar eftir þrjá mánuði, en samt mátti stjórnin ekki sitja. Það varð að skipta henni út, eyða viku í stjórnarmyndunarviðræður og fá svo nýja menn inn í ráðuneytin, til að sitja þar í þrjá mánuði fram að kosningum. Dettur einhverjum í hug að „almannahagur“ ráði svona aðgerðum?

S amfylkingin gaf þá skýringu á kröfu sinni um að skipt yrði um forsætisráðherra, að það yrði að fá almennilegan verkstjóra. Samkvæmt stjórnarsáttmála fór Sjálfstæðisflokkurinn með forsætisráðuneytið og vitað er að Geir Haarde bauðst til að standa upp úr stól sínum, ef persóna hans væri sérstakt vandamál. Það dugði ekki Samfylkingunni, heldur varð hún að fá forsætisráðherraembættið, þremur mánuðum fyrir þingkosningar. Í Morgunblaðinu í gær er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurð hvort staðreyndin sé sú, að hún hafi ekki getað hugsað sér fyrsta konan, til að verða forsætisráðherra, kæmi úr Sjálfstæðisflokknum. Og gefur þetta svar: „Það er ósanngjarnt og ósæmilegt að stilla málum upp með þeim hætti. Af hverju hefði ég átt að líta á það sem sérstakt verkefni mitt að láta konu úr Sjálfstæðisflokknum verða fyrsta til að taka við þessu embætti þegar annar möguleiki var í boði. Ég hlýt alltaf að sýna mínum flokki hollustu og þar með flokkssystur minni.“

Með öðrum orðum: Ríkisstjórn var sprengd, þremur mánuðum fyrir kosningar, af því að formaður Samfylkingarinnar vildi ekki sjá „konu úr Sjálfstæðisflokknum verða fyrsta“ til að gegna embætti forsætisráðherra, enda hlýtur Ingibjörg Sólrún „alltaf að sýna [sínum] flokki hollustu og þar með flokkssystur [sinni]“. Nákvæmlega þannig er þetta, og enginn fréttamaður mun setja stjórnarskiptin í þetta samhengi sem Ingibjörg hefur þó sjálf viðurkennt. Ekki frekar en nokkur fréttamaður segir frá því þegar Ingibjörg grípur inn í blaðamannafund forseta Íslands á Bessastöðum, kallar hann málfund og fer. Og aftur skorar Vefþjóðviljinn á menn að setja einhvern annan stjórnmálaleiðtoga í þau spor og ímynda sér viðbrögðin, endursýningarnar og álitsleitunina. Og allar upphrópanirnar um „hroka“ og „hatur á Ólafi“.