Föstudagur 30. janúar 2009

30. tbl. 13. árg.

N ú er því haldið fram í fréttum að væntanleg minnihlutastjórn ætli sér að fá utanþingsmenn í ráðherrastóla, rétt eins og ráðherrastarf sé ekki pólitísk forysta framkvæmdavalds heldur rannsóknarstofustarf þar sem allir eru í slopp og með stækkunargler. „Þjóðarbyltingin“, svo innhaldslaust tilgerðarorð sé notað, hefur þá náð því fram, að úr stjórn fara menn með umboð frá kjósendum og sem hefðu borið pólitíska ábyrgð gagnvart þeim, en inn koma menn sem enginn hefur kosið og standa engum skil á neinu. Þeir eru nefnilega „fagmenn“. Og fagmenn eru allir hlutlausir og enginn þeirra hefur neina persónulega skoðun á mönnum og málefnum. Það eru bara vondir stjórnmálamenn sem eru þannig.

  • Sumir eru greinilega svo slegnir yfir þessari þróun að í gær gerðist það að fréttum af málinu fylgdu þær upplýsingar að „Gylfi Magnússon dósent vildi ekki tjá sig um málið“. Er þetta í fyrsta skipti sem Gylfi Magnússon dósent afþakkar viðtal síðan frá því hann gagnrýndi framgöngu Hannesar Hafstein í símamálinu harðlega, í beinskeyttu viðtali við Ísafold nokkrum árum eftir að allt var um garð gengið.
     
  • Annars verður gaman að því, ef að þeir flokkar sem segjast telja að opinberar stofnanir hafi komið öllu í kaldakol, treysta oddvita einnar þeirrar, Gylfa Magnússyni stjórnarformanni Samkeppniseftirlitsins, manna best til að hafa pólitíska forystu í viðskiptamálum. Það er þá líklega vegna frábærrar frammistöðu Samkeppniseftirlitsins undir stjórn Gylfa.
     
  • Sumum þykir gaman að hafa stór orð um „hroka“ ráðamanna. Hvað á að segja um þá menn sem aldrei hafa getað lagt sig niður við að leita fylgis hjá almennum kjósendum en sjá ekkert því til fyrirstöðu að gerast ráðherra yfir þeim – og það tilnefndir af minnihlutastjórn sem komið var að kjötkötlunum með sýndarágreiningi innan meirihlutastjórnar. Og hvað á að segja um þá, sem hika ekki við að draga svona menn upp í ráðherrastóla.
     
  • Annars er nokkuð gaman að því, að einn fylgifiskur „lýðræðisbyltingarinnar“ er að ríkisstjórn, studd af fulltrúum meirihluta kjósenda, fer frá völdum, en við tekur ríkisstjórn, studd af fulltrúum minnihluta kjósenda. Meirihlutastjórn fer frá en í nafni lýðræðis tekur minnihlutastjórn við. Sérstakur lýðræðisbónus eru ráðherrar sem kjósendur hafa alls ekki kosið en fá nú yfir sig – vegna „hæfni“ þeirra.
     
  • Það hlýtur að vera undarleg tilfinning að vera kjósandi Framsóknarflokksins, og horfa upp á það að atkvæðið manns er notað til þess eins að koma allt öðrum flokkum til valda. Og jafnvel einhverjum alveg ókosnum mönnum. Af hverju telja þingmenn Framsóknarflokksins að kjósendur sínir verðskuldi ekki ráðherra? Eru þeirra kjósendur eitthvað ómerkilegri en aðrir? Að það megi nýta atkvæði þeirra til að koma vinstrigrænum og Samfylkingunni til valda, en ekki þeim flokki er þeir þó kusu?
     
  • En ef að ráðherrastörf eru þess eðlis að þar eigi að vera ókosnir „fagmenn“, er þá nokkuð vit í því að vera með einhverja kosna vitleysinga í að setja lög? Er ekki búið að margbenda á í umræðuþáttum að þingmenn eru gagnslausir og spilltir en bestu mennirnir eru hins vegar gestir umræðuþátta og aðrir „fagmenn“? Verður ekki með sömu rökum að fela „fagmönnum“ og „óháðum sérfræðingum“ að setja lög fyrir þessa vitleysinga sem kalla sig Íslendinga og eru alltaf að kjósa einhverja hálfvita? Og ef að það má ekki treysta þingmönnum til að vera ráðherrar, hvernig má þá treysta þeim til að setja lög og reglur í landinu. Verður ekki að fá einhverja faglega nefnd til að velja hæfa menn á þing og svo setja þeir lög, byggð á menntun sinni og yfirvegun?

A f hverju setti Framsóknarflokkurinn ekki það skilyrði fyrir stjórnarstuðningi sínum, að allir ráðherrar minnihlutastjórnarinnar klæddust jólasveinabúningi alla valdatíð sína. Þeir hefðu fallist á kröfuna um leið. Ráðherrarnir væntanlegu eru búnir að máta sig við stólana og fallast greinilega á hvað sem er. Að minnsta kosti skrifuðu þeir strax undir fjarstæðukennda hugmynd um „stjórnlagaþing“, sem er einhver mesti misskilningur íslenskrar stjórnmálaumræðu í margar vikur og er þá mjög langt til jafnað.

  • Stjórnarskránni verður ekki breytt á „stjórnlagaþingi“. Þeir sem þangað yrðu „kjörnir“ hefðu ekkert umboð til að breyta nokkrum sköpuðum hlut í stjórnarskránni. Og ef að það þarf að breyta einhverju í stjórnarskránni, þá geta hefðbundnir þingmenn vel séð um það, eins og stjórnarskráin segir. Undanfarnar vikur hafa nokkrir menn fimbulfambað í umræðuþáttum um „nýtt lýðveldi“ og „nýtt Ísland“, eins og eitthvert annað lýðveldi og annað Ísland hafi með dularfullum hætti liðið undir lok þegar þrír bankar komust í þrot. Allt er það tal út í loftið. Stjórnarskráin er í fullu gildi og virkar vel. Það er engin sérstök ástæða til að endurskoða hana að neinu verulegu leyti, og þó svo væri þá yrði það eingöngu gert á alþingi Íslendinga.
     
  • Og mætti kannski minna gasprara og aðra beturvita á að þeir, sem sitja á alþingi Íslendinga, eru þangað kjörnir af svo yfirgnæfandi meirihluta kjósenda að það er nær einstakt í heiminum. Þó ýmsir þeirra sem aldrei hafa notið trausts til þingsetu, að ekki sé talað um hálærða spekinga sem telja sig hafa lært til yfirráða yfir öðru fólki, líti niður á alþingismenn og kalli þá öllum illum nöfnum, þá eru alþingismenn fulltrúar íslenskra kjósenda. Sem er meira en segja má um gasprarana, þáttastjórnendurna, dósentana og alla þá menn sem telja sjálfa sig eiga að hafa vit fyrir borgurunum, án þess þó að bera nokkra ábyrgð gagnvart þeim.
     
  • Hverjum dettur eiginlega í hug að kjósendur velji 63 flón á alþingi en 63 hugsuði á „stjórnlagaþing“?
     
  • Stjórnskipun Íslands var hreint ekki að hrynja. Það er ekkert stjórnskipulegt tómarúm. Það er hvorki rúm né nokkur þörf á „stjórnlagaþingi“ eða „nýju Íslandi“. Hér er lýðræðislega kjörið alþingi, þar sem veruleg endurnýjun verður í hverjum kosningum. Kosningaþátttaka er svo mikil að slíks þekkjast ekki dæmi annars staðar.
     
  • Eitt það óþægilegasta við furðutalið um „stjórnlagaþing“, og viðbragðaleysi fjölmiðlamanna við því, er að það leiðir hugann að þeirri nýtilkomnu hugmynd að lög og reglur gildi hvergi lengur. Undanfarnar vikur hafa menn mátt horfa upp á ýmsa óátalda lögleysu, og nú er skyndilega talað eins og stjórnarskráin sé bara á förum. Er það í ætt við sumt sem fréttamenn segja athugasemdalaust að yfirvofandi ríkisstjórn ætli sér að gera, hvað sem lög segi; hún ætli bara að gera það sagt. Og sömu fréttamenn sem árum saman hafa verið óskaplega leitandi að hvers kyns hugsanlegum ávirðingum stjórnvalda, sjá skyndilega ekkert athugavert.
     
  • Af hverju í ósköpunum ættu kjósendur ekki að fá að velja alþingismenn til setu á „stjórnlagaþinginu“? Ef að kjósendur vildu nú velja þá, af hverju á að banna þeim það? Var ekki yfirskinið að auka þyrfti veg kjósenda? En svo mega þeir ekki velja þá sem þeir vilja, af því að beturvitarnir vita auðvitað betur. Þeir líta niður á þessa gagnslausu alþingismenn, sem ómenntaður skríllinn er alltaf að kjósa sér, í staðinn fyrir að láta dómefnd úr háskólanum velja einhverja flotta dósenta sem alltaf hafa vitað eftirá hvernig allir aðrir höfðu alltaf rangt fyrir sér. Svo mætti fá nokkra „sjálfstætt starfandi fræðimenn úr Reykjavíkurakademíunni“, pistlahöfunda úr Víðsjá, gestalistann úr Silfri Egils mínus Pétur Blöndal, og loks einhverja sem hafa starfað erlendis, skiptir ekki máli hvar, svo lengi sem það hefur verið í Útlöndum.
     
  • Hinn nýi formaður Framsóknarflokksins hefur sagt margt alvarlegt og raunar ágætt um að fráfarandi stjórnvöld hafi viljað skuldbinda íslenska ríkið til að bera ábyrgð á ICESAVE-reikningum Landsbankans. Þar er á ferð raunverulegt stórmál, ólíkt ýmsum þráhyggjusmámálum fjölmiðlamanna. En hvað gerir svo formaður Framsóknarflokksins þegar hann ákveður að taka ábyrgð á ríkisstjórn? Hann gerir enga kröfu varðandi ICESAVE-reikningana. En talar um stjórnlagaþing og nákvæma dagsetningu á þingkosningunum.
     
  • Utanríkisráðherra er sá sem ber ábyrgð á samningum Íslands við önnur ríki, þar á meðal um ICESAVE-reikningana. Framsóknarflokkurinn ætlar að ábyrgjast setu hennar í nýrri ríkisstjórn án þess að krefjast eins eða neins sem máli skiptir.

J æja, þá vita menn loksins fyrir hvað R-ið stendur í nafni Ómars R. Valdimarssonar.