Laugardagur 31. janúar 2009

31. tbl. 13. árg.

F

Gylfi Magnússon formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins, fyrrverandi stjórnarformaður Kauphallar Íslands og lærifaðir viðskipta- og hagfræðimenntaðra á Íslandi um árabil. Gylfi verður hækkaður í tign af minnihlutastjórn Samfylkingar og VG. Öllum öðrum í stjórnkerfinu ber að hans áliti að segja af sér.

ramsóknarmenn hafa sagt undanfarið að þeir muni ekki setjast í ríkisstjórn nú, því þeir þurfi fyrst að „endurnýja umboð“ sitt í kosningum. Þessi afstaða stenst ekki skoðun til lengdar.Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að styðja þingmenn Framsóknarflokksins til að setjast í ríkisstjórn af því að þeir hafi ekki nægt umboð. Og eftir að þessi afstaða Framsóknarflokksins liggur fyrir, er þeim ætlað að styðja til ráðherradóms… Gylfa Magnússon dósent!

Hvaða umboð hefur Gylfi Magnússon dósent? Hver hefur eiginlega kosið Gylfa Magnússon dósent? Það vantar ekki að undanfarin misseri hefur Gylfi Magnússon dósent átt ríkt innhlaup sem álitsgjafi í fréttatímum og fréttamenn í tímaþröng vita að hann er jafnan reiðubúinn að mæta og leggja þeim til eina fyrirsögn. En af hvaða ástæðu annarri á hann, algerlega ókosinn maður með ekkert lýðræðislegt umboð, að verða ráðherra í landinu, æðsti maður framkvæmdavalds? Ef að það vantar endilega ókosinn hagfræðing í ríkisstjórnina, þá er til nóg af virtum prófessorum sem ekki eru í fjölmiðlum sýknt og heilagt. Hvaðan kemur þessi furðulega áhersla á Gylfa Magnússon dósent?

Og hvaðan kemur sú ósvífni, beint eftir að framsóknarmenn hafa sagt að þeir telji sig ekki hafa nægt umboð til að setjast sjálfir í ríkisstjórn, að þá sé þeim gert að styðja Gylfa Magnússon dósent til ráðherradóms? Ef að þjóðkjörnir þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekkert umboð, hvað á þá að segja um Gylfa Magnússon dósent?

Og af hverju hafa framsóknarmenn ekki umboð eins og aðrir til að setjast í ríkisstjórn? Af því að þeir töpuðu fylgi í síðustu kosningum? Það gerði Samfylkingin líka og ekki hikar hún andartak við að krefjast forsætisráðuneytisins. Af hverju á ekki að telja atkvæði þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum? Þau atkvæði féllu á Framsóknarflokkinn en ekki á Gylfa Magnússon dósent.

Það er með ólíkindum ósvífið, að þeir flokkar sem árum saman gerðu sér upp umhyggju fyrir Framsóknarflokknum og kölluðu hann „hækju íhaldsins“, ætlist núna til að Framsóknarflokkurinn sitji áhrifalítill utan ríkisstjórnar og gefi vinstriflokkunum lausan tauminn. Og veifa svo Gylfa Magnússyni dósent framan í framsóknarmenn, til að fullkomna niðurlæginguna.

Þegar vinstriflokkarnir kölluðu Framsóknarflokkinn „hækju íhaldsins“ , þá var formaður Framsóknarflokksins ýmist utanríkisráðherra eða forsætisráðherra. Aðrir framsóknarmenn voru ráðherrar eða formenn þingnefnda. Stefnuskrá Framsóknarflokksins hafði töluverð áhrif í landsstjórninni til jafns við samstarfsflokkinn. Nú ætlast þessir sömu vinstriflokkar, þessir sem kölluðu Framsóknarflokkinn hækju í tólf ár, til þess að fá stuðning Framsóknarflokksins fyrir ekki neitt.

Og hvað eru þeir margir, fréttamennirnir sem rifja upp látlausar upphrópanir vinstriflokkanna um að Framsóknarflokkurinn væri „hækja“ Sjálfstæðisflokksins? Jú, það er svo merkilegt, að þeir eru nákvæmlega jafnmargir og samanlagðir kjósendur Gylfa Magnússonar dósents.