Annar þingmaður sem klauf sig úr Þjóðvaka fyrir síðustu kosningar en er nú kominn aftur heim, Össur Skarphéðinsson, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að stofnuð verði sérstök „öryggismiðstöð barna“. Öryggismiðstöð þessi á að miðla upplýsingum til foreldra og kennara um það hvernig börn slasast að meðaltali en samkvæmt þingályktunartillögunni mun „samræmd tölvuskráning á barnaslysum jafnframt vistuð á vettvangi miðstöðvarinnar“. Hér er um dæmigerða sýndarmennsku þingmannsins að ræða. Heldur hann virkilega að nokkrir opinberir starfsmenn í öryggismiðsstöð muni breyta einhverju til eða frá um það hversu mörg börn slasast? Líklegra er þó að fleiri börn slasist ef öryggismiðstöðin tekur til starfa því að við það verða foreldrar að verja enn meiri tíma í vinnu fyrir sköttunum. Þann tíma geta þeir ekki nýtt til að gæta barna sinna.
Mánudagur 27. október 1997
300. tbl. 1. árg.