Þriðjudagur 28. október 1997

301. tbl. 1. árg.
Umræður um laun kennara og fjárhag skóla snúast ævinlega um að hið opinbera verði að setja meira fé í þennan málaflokk. Verkfall kennara vofði yfir vegna þess að hið opinbera gat ekki með góðu móti teygt sig eins langt og kennarar hafa gert kröfur um og nýr háskólarektor syngur sama söng og fyrirrennarar hans um að ríkið verði að seilast dýpra í vasa almennings (hann orðar þessa hugsun sína raunar öðruvísi) til að halda uppi öflugum háskóla. Ráðaleysið við að ná í fé með öðrum hætti er algert. Ekki mega skólamenn heyra á það minnst að þeir sem njóti þjónustu þeirra greiði fyrir hana (vonandi er það ekki af því að þeir hafi vantrú á þjónustunni), þótt vissulega væri eðlilegt að nemendur greiddu hærra hlutfall af kostnaðinum við eigin menntun, sérstaklega á seinni stigum náms.

En e.t.v. má læra af útlöndum hvernig skólar geta náð í fé eftir öðrum leiðum. Frá því var sagt í fréttum á þýsku sjónvarpsstöðinni RTL í gærmorgun að sums staðar í Þýskalandi væru skólar nú farnir að taka við auglýsingum frá einkaaðilum til að kosta vissa starfsemi. Þannig væru t.a.m. auglýsingaskilti í íþróttasölum til að greiða fyrir tækjakost og á skólabílum til að greiða eldsneyti á þá. Þeir sem starfa í skólum landsins verða að fara að hugsa á ögn ferskari nótum en hingað til. Þeir ættu að fara fram á að skólarnir verði einkavæddir til að starfsmennirnir geti bryddað upp á nýjungum, bætt kjör sín og menntun nemenda.

Eins og við mátti búast bættust nokkur hundruð nýir félagar við félagatal Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu um helgina. Alltaf er eitthvað um óvæntan liðsauka. Að þessu sinni vakti nýskráning Hrafns Jökulssonar, varaþingmanns af Suðurlandi, mesta athygli. En Hrafn sagði sig úr Alþýðuflokknum fyrr á þessu ári.

Vegna  helgarsproksins síðustu helgi um frammistöðu þátttakenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins barst athugasemd frá lesanda