Miðvikudagur 29. október 1997

302. tbl. 1. árg.
Gjaldskrárhækkun  Landsímans sýnir að ekki er nóg að breyta ríkisstofnunum í ríkishlutafélög . Einkavæðing og afnám einokunar þarf að fylgja í kjölfarið. Undirskriftarsöfnun er hafin á Netinu gegn hækkuninni sem er 149% á einu ári! .   Á þingi Verkamannasambandsins komu fram afar athyglisverðar upplýsingar frá lögfræðingi ASÍ um starfsmannafjölda og tekjur verkalýðshreyfingarinnar. Starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar eru um 400 talsins og þar af telur lögfræðingurinn að 300 vinni við að svara í síma eða færa bókhald. Skyldugreiðslur launafólks til hreyfingarinnar nema litlum 1.300 milljónum króna á ári, þannig að kostnaður á starfsmann eru 3,25 milljónir króna. Samkvæmt sömu upplýsingum lögfræðingsins eru meðallaun launamanna, sem skyldaðir eru til að greiða til verkalýðshreyfingarinnar, einungis rúmlega 1,1 milljón, þannig að árlegur kostnaður við rekstur hvers starfsmanns verkalýðshreyfingarinnar nemur þreföldum árslaunum launamanns í hreyfingunni. Lögfræðingur ASÍ segir að til að lækka þennan kostnað verði að sameina alla verkalýðshreyfinguna í ein heildarsamtök. Það sem þó hlýtur að liggja beinna við að gera til að bæta stöðu launþega gagnvart verkalýðshreyfingunni er að afnema skylduaðildina að henni og leyfa launafólki að ráða því sjálfu hvort það vill vera í félagi launþega eða ekki. Ef slíkt val hefði alla tíð verið fyrir hendi er fullvíst að verkalýðshreyfingin hefði ekki orðið að því skrifræðisskrýmsli sem hún er í dag. Forsprakkar hreyfingingarinnar (sem ætti kannski frekar að kalla stofnun) hugsuðu þá meira um hag launþega en minna um eigin laun, aðstöðu og völd.

Eins og drepið var á í síðustu viku keppist verkalýðsbáknið nú við að auglýsa eigið ágæti á kostnað félaga í lífeyrissjóðum.  Raunar er ágæti stefnu verkalýðsrekenda í lífeyrismálum nokkuð umdeilt.  Annað svið sem þessi samtök hafa hrósað sér af „árangri“ á er rekstur og úleiga orlofshúsa.  Stéttarfélag verkfræðinga (SV) hefur um nokkurt skeið tekið þátt í orlofssamstarfi BHM félaga þrátt fyrir að félagið sé ekki aðili að BHM.  Greiðslur félaga SV til OBHM voru á síðasta ári 2,2 milljónir króna.  Alls átján félagar SV af 36 sem sóttu um fengu orlofshús í viku á vegum Orlofssjóðs BHM á síðasta ári.  Kostnaður af vikudvöl hvers þeirra hefur verið um 120 þúsund krónur að viðbættri beinni greiðslu þeirra sem var 9-12 þúsund krónur. Segi svo einhver að verkalýðshreyfingin sjái ekki vel fyrir þörfum (og peningum) félaga sinna. Þessa dagana fer fram skoðanakönnun meðal félagasmanna Stéttarfélags verkfræðinga um hvort þeir vilji breyta fyrirkomulagi orlofsmála.