Helgarsprokið 26. október 1997

299. tbl. 1. árg.
Nú um helgina fór fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fór það varla fram hjá neinum, enda höfðu flestir frambjóðendur lagt mikið kapp og margföld mánaðarlaun sín í að auglýsa það hve nauðsynlegt hefði verið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að þeir næðu kjöri. Tæplega 7000 manns greiddu atkvæði í prófkjörinu og var það hvorki meira né minna en vænta mátti. Eins og flestir bjuggust við, varð Árni Sigfússon í efsta sæti. Hann lagði mikla áherslu á að hann væri oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, og þó hann hefði aldrei verið kosinn í þá stöðu í prófkjöri virtist enginn efast
um þá fullyrðingu hans. Árni hlaut 70 % atkvæða í fyrsta sætið sem er talsvert lægra hlutfall en fyrri leiðtogar flokksins hafa fengið. Engu að síður er þessi niðurstaða vel ásættanleg fyrir Árna, þegar haft er í huga að einn af borgarfulltrúum flokksins, Inga Jóna Þórðardóttir, sóttist mjög eftir þessu sama sæti. Árni hefur verið borgarfulltrúi í Reykjavík frá árinu 1986, verið í borgarráði í allnokkur ár og varð fremur óvænt borgarstjóri um tíma árið 1994 eins og menn muna. Árni stýrði því kosningabaráttu flokksins árið 1994 og hlaut þar mikla kynningu meðal borgarbúa og er ótvírætt þekktastur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Vinstri menn hafa markvisst haldið því fram undanfarin ár að Árni sé ekki mikill forystumaður og
Sjálfstæðisflokkurinn eigi í raun engan leiðtoga í borgarstjórn Reykjavíkur. Hafa ýmsir sjálfstæðismenn í Reykjavík verið svipaðrar skoðunar. Víst er að sú kosning sem Árni hlaut í prófkjörinu styrkir stöðu hans sem oddvita borgarstjórnarflokksins, enda hafði hann fram að þessu nokkuð goldið þess að hafa aldrei hlotið efsta sæti í prófkjöri. Þá þykir Árni hafa staðið sig vel
sem formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sýnt þar röggsemi og unnið vel að hagsmunum umbjóðenda sinna.

Í öðru sæti prófkjörsins varð Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Vilhjálmur hefur setið lengur í borgarstjórn en Árni og er reyndasti borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Þá er Vilhjálmur þekktur sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Engu að síður afréð hann að sækjast ekki eftir 1. sætinu, hefur hann ef til vill hugsað með sér að betri væri einn fugl í hendi en tveir í skógi. Um tíma var rætt um að hann hyggðist láta sverfa til stáls um forystusætið í borgarstjórnarflokknum, einkanlega eftir að fréttist að hann myndi tilkynna fyrirætlanir sínar á sérstökum blaðamannafundi og væri þaðan tíðinda að vænta. Þegar til kom lýsti Vilhjálmur yfir stuðningi við Árna Sigfússon en óskaði eftir öðru sætinu sér til handa. Eflaust hafa margir verið honum þakklátir fyrir að efna ekki til aukinna átaka um fyrsta sætið, enda lögðu margir áherslu á samstöðu flokksmanna, nú þegar hörð kosningabarátta við vinstri menn er framundan. Þá er líklegt að margir stuðningsmenn Árna hafi að þessu sinni ákveðið að
styðja Vihjálm í annað sætið, enda hlaut Vilhjálmur afgerandi kosningu í það og er ótvírætt annar sterkastur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir.

Í þriðja sæti varð Inga Jóna Þórðardóttir. Hún vakti mikla athygli þegar hún ákvað að gefa kost á sér gegn Árna Sigfússyni í efsta sætið. Kunnu ýmsir henni litlar þakkir og töldu hana efna til óvinafagnaðar. Aðrir töldu það sýna lýðræðisleg vinnubrögð sjálfstæðismanna að hjá þeim sé heimilt að bjóða sig fram gegn oddvitanum, ólíkt því sem gerist hjá R-listanum þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tilkynnir einfaldlega að hún hafi ákveðið að taka tiltekið sæti. Inga Jóna fékk tæp 20 % atkvæða í efsta sætið, og hefði eflaust fengið meira fylgi ef hún hefði ekki byggt kosningabaráttu sína á því að um nokkurs konar kvennaframboð væri að ræða. Hefði henni sjálfsagt gengið betur ef meira hefði verið hamrað á því að hún væri hæfur
einstaklingur og stuðningskonur hennar ekki birt greinar þar sem flokksfólk var hvatt til að kjósa konu. Undir venjulegum kringumstæðum verður sá sem hlýtur þriðja sæti í prófkjöri áhrifamikill borgarfulltrúi en ekki er gott að segja hver staða Ingu Jónu verður. Enn er of snemmt að segja hvort mönnum mun þykja sem Inga Jóna hafi beðið mikinn ósigur í prófkjörinu þar sem hún hafi aðeins fengið tæplega fimmtung atkvæða í það sæti sem hún bað um, og eftir er að koma í ljós hvort eftirmál verða í samstarfi hennar og Árna Sigfússonar. Hér mun skipta miklu máli hvernig þau tvö munu halda á málum, hvort þau munu leggja áherslu á að slíðra sverðin eða hvort stutt verður niður á ósætti þeirra. Því er ekki að leyna að ýmsum þóttu ummæli Ingu Jónu
í sjónvarpi á laugardagskvöldið benda til að hún tæki niðurstöðum prófkjörsins ekki sérstaklega vel.

Fjórði var Júlíus Vífill Ingvarsson. Kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins bætti honum við frambjóðendahópinn og tóku flokksmenn því vel. Þótti hann skírskota til ýmissa geira þjóðfélagsins, að minnsta kosti þótti mörgum kjósendum þeir hafa himin höndum tekið þegar kominn var athafnamaður sem hélt lagi. Júlíus Vífill er ótvírætt ferskasta nafnið meðal þeirra efstu og mun eflaust reynast flokknum vel þegar kemur að hinni raunverulegukosningabaráttu næsta vor.

Í fimmta sæti varð Jóna Gróa Sigurðardóttir. Hún hefur langa reynslu í borgarmálum, hefur setið í borgarstjórn í níu ár og starfað mikið að félagsmálum, m.a. innan fangahjálparinnar Verndar, þar sem hún hefur beitt sér í málefnum fyrrverandi fanga. Þá hefur Jóna Gróa starfað mikið innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, eiginmaður hennar, Guðmundur Jónsson vélfræðingur, lengi verið formaður Félags sjálfstæðismanna í Bústaðahverfi, og þau bæði því vel kynnt meðal flokksmanna. Árangur Jónu Gróu kemur því ekki á óvart þó hún sé ekki mjög þekkt meðal alls almennings.

Sjötti varð Ólafur F. Magnússon læknir. Ólafur hefur verið varaborgarfulltrúi í sjö ár og hefur lengi haft mikinn áhuga á að láta til sín taka í borgarmálunum. Hann hefur verið áberandi þrátt fyrir að hafa einungis verið varamaður í borgarstjórn, verið óþreytandi að skrifa greinar í blöð og gagnrýnt R-listann hástöfum. Hefur því fjölmörgum kjósendum þótt rétt að gefa honum tækifæri til að verða aðalmaður í borgarstjórn þar sem nú er þörf á skeleggum baráttumönnum.

Guðlaugur Þór Þórðarson varð í sjöunda sæti. Sýnir það að sjálfstæðismenn eru óhræddir að gefa nýjum mönnum tækifæri og láta Guðlaug ekki gjalda þess að vera varaþingmaður Vesturlands og hafa einungis búið í Reykjavík í fáar vikur. Þó Guðlaugur hafi þar til hann fór í prófkjörið aldrei sagt neitt opinberlega um borgarmál, og þar til í september hafi ekki verið vitað til að hann hyggðist hasla sér völl á þeim vettvangi, er alls ekki útilokað að hann hafi þar margt fram að færa. Það er ekki siður Guðlaugs að halda eigin afrekum á loft og hefði hann eflaust náð enn lengra ef hann hefði sagt frá því í kosningabaráttunni að hann hafði þegar aflað sér reynslu af sveitarstjórnarmálum sem varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Borgarnesi.

Í áttunda sæti í prófkjörinu varð Kjartan Magnússon varaborgarfulltrúi. Kjartan hefur starfað árum saman innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og verið varaborgarfulltrúi undanfarin fjögur ár. Hann hefur verið óvenjulega
áberandi sem varaborgarfulltrúi. Einkum hefur borið á honum sem stjórnarmanni SVR þar sem hann hefur verið R-listanum erfiður ljár í þúfu. Kjartan var formaður Heimdallar árin 1991-1993 og starfaði mikið innan félagsins fyrir þann tíma og eftir hann. Hann hefur verið óþreytandi í innra starfi flokksins og þekkja margir flokksmenn því til hans. Því kemur ekki á  óvart að hann nái þessum árangri. Hann hefur einnig skrifað mjög margar blaðagreinar þar sem hann hefur látið R-listann fá það óþvegið og þótti fjölmörgum kjósendum sem hann væri baráttumaður sem mikilvægt væri að hafa þegar vinna þyrfti borgina á nýjan leik.