Atkvæði greitt smáflokkunum er ávísun á vinstri stjórn

Óstöðugleikann í íslenskum stjórnmálunum má ekki síst rekja til þess fjölda smáflokka sem nú fylla sali alþingis. Smáflokkarnir, sem hlupu nýlega úr ríkisstjórn um miðja nótt, eru nærtækasta dæmið þar um.

Kannanir benda nú til að litlu flokkum á þingi muni jafnvel fjölga í kosningunum á laugardaginn. Þó eru þrír þeirra alveg á mörkum þess að ná þeim 5% atkvæða sem þarf til að eiga rétt á jöfnunarmönnum. Það eru Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins.

Atkvæði greidd þessum flokkum geta því fallið dauð eða nýst mjög illa. Þetta virðist sérstaklega eiga við um Viðreisn og Flokk fólksins þar sem verulegar líkur eru á því að flokkarnir nái ekki 5% markinu og eigi þar að leiðandi ekki rétt á jöfnunarmönnum.

Frjálslyndir kjósendur geta vart verið að hugsa um að kjósa Viðreisn eftir forsjárhyggjutilburði þess flokks í ríkisstjórn undanfarin misseri. Viðreisn virkaði eins og venjulegur vinstri flokkur í ríkisstjórn þar sem áhersla flokksins var á skattahækkanir, reiðufjárbann og aukin afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu. Fátt bendir því til þess að Viðreisn hafi hug á að starfa til hægri heldur muni glöð gerast fimmta hjólið undir vinstri stjórn nái hún á annað borð kjöri.

Þeir sem hafa engu að síður gælt við að kjósa Viðreisn eða þá Flokk fólksins, en eru andvígir því að hér taki við vinstri stjórn að loknum kosningum, hljóta að velta því fyrir sér hvort það sé áhættunnar virði að kjósa þessa flokka og eiga á hættu að atkvæðið nýtist í raun vinstri flokkunum þegar það fellur dautt.