Vinstri stjórnin hækkaði skatta á allt og alla nema á lífolíu og kol

Þegar vinstri stjórnin hækkaði skatt á tekjur yfir 230 þúsund krónur í 40% árin 2010 – 2013 hugsuðu sjálfsagt margir að nú hlyti hún að hafa tæmt alla möguleika til skattheimtu. Það gæti ekkert verið eftir óskattlagt í lofti, láði og legi fyrst fólk með rúmlega 230 þúsund krónur í laun væri farið að greiða 40% hátekjuskatt.

En á sama tíma og láglaunafólk var pínt með 40% skatti veitti vinstristjórnin tveimur fyrirbærum ótrúleg skattfríðindi.

Annars vegar fékk kolafabrikkan á Bakka samning um 1,5 milljarða króna skattfríðindi ásamt nokkurra milljarða vörubílagöngum og hafnaraðstöðu.

bf43abaec857ca01d8b0471ce258b10aHins vegar voru árið 2013 sett lög sem skikkuðu landsmenn til að blanda svokölluðu endurnýjanlegu eldsneyti í hefðbundið eldsneyti. Tveimur árum áður hafði vinstri stjórnin gert breytingar á eldsneytissköttum á þann veg að með hverjum seldum lítra af „endurnýjanlegu“ eldsneyti fengist um 70 króna meðgjöf frá ríkinu. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um málið síðasta haust kom fram að ríkið leggur til yfir eitt þúsund milljónir króna á ári í þessu skyni. Skattaafslátturinn rennur beint úr landi til erlendra framleiðenda lífeldsneytis.

Hið dæmalausa lagafrumvarp sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram til að skikka menn til þessarar íblöndunar vorið 2013 var skrifað af hagsmunaaðila án þess að alþingi væri gerð grein fyrir að svo væri. Lögin hafa hins vegar ýtt undir innflutning á tugmilljónunum lítra af svonefndu lífeldsneyti, sem framleitt er úr matjurtum. Annars vegar er um að ræða dýrar lífolíur sem blandað er í Dieselolíu og hins vegar etanól sem blandað er í bensín. Lífeldsneytið inniheldur minni orku en hefðbundin Dieselolía og bensín. Því hefur þurft að flytja inn fleiri lítra af eldsneyti en áður. Hér verður ekki farið út í neikvæð áhrif framleiðslu lífeldsneytisins á líffræðilega fjölbreytni eða framboð matvæla til þeirra sem minnst mega sín. Það geta menn kynnt sér hér.

Þetta gerði nú „græna velferðarstjórnin“. Setti hátekjuskatt á láglaunafólk og veitti mengandi starfsemi og sóun skattfríðindi.