„Ég fyrirlít Sjálfstæðisflokkinn“

Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á Stundinni setti upp falska Facebook síðu í nafni pólitísks andstæðings. Þegar upp komst var málsvörn hans sú að segjast fyrirlíta Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þá blaðamaður á DV,  í samtali við Morgunblaðið 2. maí 2013:

Ég fyr­ir­lít Sjálf­stæðis­flokk­inn en ég hef samt snef­il af sóma­kennd og ég myndi ekki grípa til hvaða skíta­bragða sem er.

Þá hafði Jóhann viðurkennt að hafa sett upp falska Facebook síðu í nafni ungliðahreyfingar framboðs Sturlu Jónssonar baráttumanns fyrir bættum hag lánþega og heimila. Jóhann Páll taldi Sturlu vera óþægilegan fyrir vinstri stjórnina sem sat þá að völdum.

Getgátur voru því uppi um að Jóhann Páll hefði sett upp samskonar falskar síður til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn en því neitaði hann með þessum ofsafengnu orðum. Hann hafði þó einmitt gripið til „hvaða skítabragða sem er“ gegn Sturlu. Síðar baðst Jóhann afsökunar á orðunum með þeirri skýringu að hann fyrirliti ekki Sjálfstæðisflokkinn heldur sé andvígur ýmsu því sem flokkurinn standi fyrir.

Jóhann Páll er einn höfunda greina í Stundinni í dag um margskoðuð og margrædd viðskipti Bjarna Benediktssonar fyrir áratug.