Snakk snarlækkaði í verði eftir afnám tolls

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar alþingis lagði í byrjun desember 2015 til að 59% tollur á snakk yrði felldur niður.

Þá hófu innlendir snakkframleiðendur, sem framleiddu raunar nær eingöngu úr innfluttu hráefni, ásamt Samtökum iðnaðarins að herja á nefndarmenn. Samtökin vildu viðhalda því kerfi að fjármunir væru færðir frá 330 þúsund neytendum til tveggja félagsmanna í samtökunum með því að hækka verð á snakki með verndartollum.

snakkVið þennan þrýsting frá Samtökum iðnaðarins féllu einhverjir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd frá stuðningi við málið sem þeir höfðu þó sjálfir lagt fram.

Þá lagði Sigríður Á. Andersen, þá nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefndinni, fram tillögu í eigin nafni um afnám tollsins frá og með 1. janúar 2017.

Eftir að málið hafði fengið opinbera umfjöllun í nokkra daga ákváðu þeir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd sem áður höfðu fallið frá stuðningi við málið að gerast meðflutningsmenn Sigríðar um afnám tollsins ásamt flestum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni.

Atkvæði um þetta táknræna mál féllu svo 34 – 5 viðskiptafrelsinu í vil. Það var aðeins þingflokkur VG sem í heilu lagi vildi að fjármunir væru með þessum hætti fluttir áfram frá neytendum til tveggja fyrirtækja en flestir þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá.

Strax á fyrstu vikunum eftir á tollurinn var felldur niður um síðustu áramót mátti svo merkja verulega verðlækkun á snakki samkvæmt könnun Félags atvinnurekenda og ekki verður betur séð en að sú þróun hafi haldið áfram fram eftir árinu þannig að afnám tollsins hafi skilað sér til almennings.

Engum þurfti að koma á óvart að Samtök iðnaðarins gættu sérhagsmuna félagsmanna sinna gegn neytendum í þessu máli. Það var bara dæmigert hagsmunapot.

En hvaða ástæðu hafði þingflokkur VG til að leggjast gegn almenningi? Katrín Jakobsdóttir skýrði það við atkvæðagreiðsluna hvers vegna færa á fjármuni frá neytendum til framleiðenda. Það er lýðheilsumál!