Einn formaður studdi Dreka, Bakka, Vaðgöngin, Icesave, ESB og loftárásir á Líbýu

Formaðurinn með þessa einstæðu ferilsskrá er formaður VG. Og nú hugsa sjálfsagt einhverjir: Er Steingrímur enn formaður í VG? Nei formaðurinn er Katrín Jakobsdóttir sem sat sem ráðherra í vinstri stjórninni á árunum 2009 – 2013 þegar öll þessi mál voru afgreidd. Hún studdi þau öll.

Vinstri stjórnin gerði ekki athugasemdir við loftárásir Nató á Líbýu, hún sótti um aðild að ESB, hún gerði þrjár tilraunir til að láta almenning greiða Icesave skuldir einkabanka, hún veitti einkafyrirtæki milljarða lánafyrirgreiðslu vegna ganga í Vaðlaheiði, hún studdi milljarða fyrirgreiðslu skattgreiðenda við stóriðjuna á Bakka og gerði samninga við olíuleitarfyrirtækin á Dreka.

Alþýðufylkingin er nefnilega ekki að bjóða fram að ástæðulausu. Vinstri sinnaðir andstæðingar olíuvinnslu í norðurhöfum, stóriðjuvæðingar á Bakka, ríkisábyrgðar á skuldum auðvaldsins, einkaframkvæmdum með ríkisábyrgð, ESB aðildar og hernaðarbrölts þurfa að eiga einhvern kost í kosningunum.