Þú ert réttur á hlaðborði

Kannanir benda nú til að vinstri stjórn VG, Pírata og Samfylkingar taki við völdum í lok mánaðarins. Eins og Óli Björn Kárason rekur í grein í Morgunblaðinu í dag hafa VG og Samfylking gert grein fyrir því í nefndarálitum við gerð fjármálaáætlunar fyrir árin 2018 til 2022 að flokkarnir vilji auka álögur á landmenn um 236 til 334 milljarða. Það eru um 3 til 4 milljónir í aukna skatta á hverja fjögurra manna fjölskyldu á tímabilinu.

En hvað með Pírata? Munu þeir ekki standa á bremsunni þegar kemur að skattahækkunum? Þeirra helsti talsmaður innan lands og utan er Smári McCarthy. Hann tjáði sig um skattahækkanir í Vikulokunum í Ríkisútvarpinu skömmu eftir kosningar síðasta haust.

Nú er ég búinn að vera að skoða tekjuöflunartillögur allra flokka og svona hvar væri hægt að nálgast peninga og það sem ég sé í því er að bara ef ég má kalla það hlaðborð sem þarf bara að velja úr.

Þetta er viðhorf Pírata til heimilanna í landinu. Þau er bara hlaðborð sem þarf að velja úr þegar stjórnmálamenn vilja „nálgast pening“.