Innflutningur lífeldsneytis niðurgreiddur með milljörðum af vegafé

Yfir þúsund milljónir af vegafé Íslendinga renna árlega til innkaupa á lífeldsneyti.

Það er mikið kvartað undan því að það vanti hundrað milljónir hér og hundruð milljóna þar í vegabætur um land allt. Og víst er að bíleigendur greiða um tvöfalt meira í sérstaka skatta en varið er til vegagerðar.

En þegar stjórnmálamennirnir afsaka sig með því að peningarnir séu settir í aðra og þá mikilvægari hluti er rétt að minnast á eitt.

Í lok síðasta kjörtímabils var fjármálaráðherra spurður hve miklar skattaívilnanir ríkisins til innflutnings á lífeldsneyti (Biodiesel og etanóli) væru. Í svari fjármálaráðherra segir:

Að framangreindu sögðu er sundurliðað svar ráðherra, ásamt ítarupplýsingum, birt í eftirfarandi töflu. Þar kemur m.a. fram að áætlaðir eldsneytisskattar og -gjöld, að viðbættum virðisaukaskatti, á það magn jarðefnaeldsneytis sem svarar til orkugildis þess magns lífeldsneytis sem flutt var inn eða notað á árinu 2015 hefðu numið 1,1–1,3 milljörðum kr.

Með öðrum orðum styrkti ríkissjóður innflutning á þessu orkurýra og dýra eldsneyti um 1,1 – 1,3 milljarða árið 2015. Fjárhæðin hefur verið svipuð fyrir síðasta ár. Þessir fjármunir renna að mestu leyti úr landi til erlendra framleiðenda lífeldsneytis.

Ástæðan fyrir þessum ósköpum eru lagafrumvarp sem hagsmunaaðili skrifaði og Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra lét gera að lögum umræðulítið á alþingi vorið 2013.

Iðnaðarráðherra var margsinnis hvattur til þess á síðasta kjörtímabili að beita sér fyrir breytingum á lögunum en aðhafðist ekki.

Það er reyndar ekki svo að vegbætur séu eini ávinningurinn af því að hætta þessum niðurgreiðslum á lífeldsneyti. Bíleigendur munu fá ódýrara og orkuríkara eldsneyti. Ferðum á bensínstöðvar myndi fækka. Minna þyrfti því að flytja inn af eldsneyti. Framleiðsla lífeldsneytis úr matjurtum  hefur einnig áhrif á matarverð í heimi þar sem margir líða skort. Þessi ræktun leiðir svo til þess að skógar eru ruddir og votlendi ræst fram.