Frá Þorra til Góu: Tímamót í jafnréttisumræðunni

Hið dásamlega listaverk Hugdjarfa stúlkan andspænis bolanum af Wall Street.

Meint kynbundið launamisrétti hefur um árabil verið helsta ástæðan fyrir gremju með stöðuna í jafnréttismálum.

Enda engin furða þar sem því er oft slengt fram fyrirvaralaust að konur séu með allt að þriðjungi lægri laun er karlar fyrir sömu störf.

Þannig sagði á vef Vinnumálastofnunar síðasta haust:

Í tilefni af Kvennafrídeginum verður lokað hjá Vinnumálastofnun frá klukkan 14.38 mánudaginn 24. október. Rannsóknir á vinnumarkaði hafa sýnt fram á að konur eru að meðaltali með 29,7% lægri tekjur en karlar og samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum að loknum 5 klukkustundum og 38 mínútum miðað við fullan vinnudag frá kl 9-17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl 14:38.

Í þessari frásögn virðulegrar opinberrar stofnunar af „rannsóknum á vinnumarkaði“ er ekkert tillit tekið til vinnutíma, stöðu, starfsreynslu, ábyrgðar, mannaforráða eða yfirleitt nokkurs annars sem hefur áhrif á laun fólks. Sjálf Vinnumálastofnun ríkisins heldur því fram að jafnréttislögin, sem banna kynbundna launamismunun í fyrirtækjum, séu brotin vítt og breitt um þjóðfélagið með því að hýrudraga konur þannig að þær vinni kauplaust eftir kl. 14:38 á daginn.

En nú á hinum fornu vetrarmánuðum Þorra og Góu kann skyndilega að hafa orðið varanleg breyting á þessari einhliða og afvegaleiðandi umræðu.

 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ritaði í byrjun febrúar grein í árshátíðarrit Orators félags laganema við Háskóla Íslands. Þar sagði hún meðal annars um launamun kynjanna:

sigga3Í þeim launakönnunum sem gerðar eru til að kanna í hverju launamunurinn liggur er jafnan reynt að leiðrétta fyrir ýmsum þáttum á borð við vinnutíma, mannaforráðum, menntun og reynslu. Þegar leiðrétt er fyrir þessum mælanlegu þáttum stendur enn eftir um 5% tölfræðilega marktækur munur á kynjunum körlum í vil. En þessi marktæki munur er aðeins innan þess takmarkaða heims sem launalíkönin eru. Utan hans eru margir huglægir og ómælanlegir þættir sem erfitt er að fella inn í líkön af þessu tagi. Tveir starfsmenn geta litið eins út á pappír, með sömu reynslu og menntun, en annar þeirra hefur bara minni áhuga á starfinu en hinn, hann hefur ekki frumkvæði að nýjum verkefnum og sinnir viðskiptavinum með hálfum hug. Annar er alltaf til í að vinna yfirvinnu en hinn ekki. Þetta veit vinnuveitandinn og launar þá eftir því en um þetta hafa líkönin sem mæla launamuninn enga hugmynd. Þar við bætist að á vinnumarkaði er enn talsverð kynjaskipting, það eru svonefnd kvennastörf og karlastörf. Þetta þvælist einnig fyrir raunhæfum samanburði á launum kynjanna. Það sem ég er að reyna að koma orðum að hér er að þótt kannanir mæli enn um 5% „kynbundinn“ launamun þá er hann of lítill til að hægt sé að fullyrða nokkuð um kynbundið misrétti á launamarkaði. Til þess eru þessar kannanir of takmarkaðar, mannleg samskipti verða aldrei felld að fullu í töflureikni. Þær munu seint geta metið hina huglægu þætti sem skipta svo miklu máli í sambandi vinnuveitanda og starfsmanns.

Sigríður vitnaði svo í skýrsluna Launamunur karla og kvenna sem velferðarráðuneytið lét vinna árið 2015 þar sem segir:

„Ómálefnalegan, óskýrðan launamun má skilgreina sem launamun sem eingöngu er vegna kynferðis. Um er að ræða þann mun sem eftir stendur þegar tillit hefur verið tekið til allra þeirra þátta sem áhrif hafa á launamyndun. Í reynd er í besta falli hægt að nálgast þennan mun. Launamyndun byggist oft á þáttum sem tölfræðin veitir ekki svar við. Við getum því ekki með vissu ályktað að sá óskýrði launamunur sem hér hefur verið metinn sé eingöngu vegna kynferðis.“

Sigríður lauk svo grein sinni á þessum orðum:

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þrýstingur á opinberar aðgerðir í jafnréttismálum, til dæmis kynjakvóta og jafnlaunavottanir, myndi minnka ef þessu væru gerð betri skil í opinberri umræðu.

 

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Vinstri sinnaðir femínistar töldu dómsmálaráðherra hafa sagt hluti sem mætti ekki segja. Þetta væru „ótæk“ og „óboðleg“ viðhorf. Á árinu 2017! Og frá konu! Hún hafði bersýnilega móðgað launamuninn þeirra. Ekki var gerð tilraun til að svara skrifum ráðherrans efnislega heldur átti að bannfæra sjónarmiðin.

En umræðan fór í annan farveg en vinstri femínistar óskuðu sér.

 

Einar Steingrímsson prófessor í stærðfræði í Skotlandi lagði orð í belg á Facebook 10. febrúar:

einar_steingrimssonÞað eru nánast engin gögn til á Íslandi sem benda til launamunar sem stafi bara af kynferði. Þau litlu gögn sem til eru sem ekki eru gersamlega marklaus (eins og kannanir stéttarfélaga eru allar) benda til svo lítils munar að það er mjög varasamt að draga ályktanir af, auk þess sem það er aldrei hægt að vera viss um að allar breytur sem skipta máli hafi verið teknar með.

En jafnvel þótt gögnin væru fullkomin, þá er ekki hægt að finna út kynbundinn launamun með því að steypa saman gögnum úr mörgum stofnunum eða fyrirtækjum.

Og svo skrifar Einar áfram:

Ég veit ekki hvort ég á að segja að ég sé á móti jafnlaunavottun. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að það sé hægt að votta það á hlutlægan hátt hvort fólk fær sömu laun fyrir sömu vinnu, og þess vegna hef ég enga trú á að þetta verði annað en enn eitt skrifræðisbáknið sem engu komi til leiðar nema skriffinnsku. Sama held ég að gildi um „jafnréttisáætlanir“ sem stærri fyrirtæki eru skikkuð til að hafa. Ég held að þær séu nánast aldrei neitt annað en pappír.

Þetta er útbreidd „sýki“, að halda að hægt sé að mæla svona hluti nógu nákvæmlega til að mælingarnar séu nothæfar til einhvers.

 

Helgi Tómasson prófessor í tölfræði og hagrannsóknum við Háskóla Íslands og fyrrum starfsmaður Kjararannsóknaráðs ritaði tvær greinar um málið í Fréttablaðið 15. og 20. febrúar en áður hafði Morgunblaðið rætt við bæði Helga og Einar í tímamótaumfjöllun blaðsins um þessi mál 13. febrúar sem menn geta kynnt sér hér. Í umfjöllun Morgunblaðsins sagði meðal annars:

helgi_tomassonHelgi Tómasson, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands, hefur lengi verið þeirrar skoðunar að margt sem sagt hefur verið um kynbundinn launamun sé rangt og hefur hann birt greinar hér á landi og í erlendu tímariti sem fjalla um tölfræði og launamun kynjanna. Segir Helgi að í könnunum og rannsóknum, m.a. þeirri sem Hagstofa Íslands vann fyrir aðgerðahóp um launajafnrétti fyrir velferðarráðuneytið árið 2015, „Launamunur karla og kvenna“, sé ekki tekið tillit til nógu margra þátta. Í samtali við Morgunblaðið segir Helgi að skýringin á því að óútskýrðan launamun sé að finna í rannsóknum á launum kynjanna, sé að alltaf sé verið að gera sömu villuna. „Það er ekki verið að margendurtaka rannsóknir, það er verið að margendurtaka sömu vitleysuna,“ segir Helgi.

Í fyrri grein sinni í Fréttablaðinu sagði Helgi:

Tölfræðiályktanir í könnunum um kynbundinn launamun byggja á því að unnt sé að skýra launamyndun með mjög einföldum breytum á borð við starfsheiti og starfsaldur. Því er síðan haldið fram að það sem ekki tekst að skýra með þessum einföldu breytistærðum sé kynjamismunun. Það sem öllu máli skiptir er að í slíkum útreikningum liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um ástæður þess að starfsfólk með sama starfsheiti og starfsaldur í mismunandi fyrirtækjum getur verið með mishá laun af fullkomlega eðlilegum ástæðum. Umræða um kynbundinn launamun er alþjóðleg og byggir á oftúlkunum í gagnagreiningu. Munur á hegðun kynja er flóknari en svo að lýsa megi henni með einni tölu. Tölfræðingar skrifa ekki upp á að kynbundinn launamunur sé vitrænt hugtak á grundvelli fyrirliggjandi staðreynda.

Í seinni grein sinni skrifaði Helgi svo:

Annar stór galli á þessum könnunum er sá að hópar starfsfólks í mjög mismunandi fyrirtækjum eru lagðir saman. Sá möguleiki er fyrir hendi að ekkert fyrirtæki eða stofnun stundi þá mismunun gagnvart konum sem menn þykjast lesa út úr meðaltalinu um kynbundinn launamun.

Gott innlent dæmi er launakönnun á vegum félagsmálaráðuneytisins frá árinu 2006 sem greindi frá meiri kynbundnum launamun á öllum vinnumarkaðnum (15,7%) en á hvorum hluta hans, þ.e. opinbera geiranum (11,8%) og einkageiranum (15,5%). Hluti kynbundins launamunar varð því til í samlagningu þessara tveggja markaða. Eðli vinnumarkaðarins er að laun eru mishá. Sama menntun er misverðmæt í mismunandi fyrirtækjum og stofnunum. Verkaskipting hjóna skiptir einnig máli. Giftir karlar hafa miklu hærri laun en ógiftir á sama aldri og áhrif hjónabands á laun eru miklu meiri hjá körlum en konum. Af framangreindum ástæðum (og fleirum) er sennilegt að vottun fyrirtækja samkvæmt jafnlaunastaðli muni hafa óveruleg áhrif á mat á kynbundnum launamun.

 

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis blandaði sér í umræðuna í grein í Morgunblaðinu 15. febrúar:

olibjornGóðhjartaðir stjórnmálamenn eru gjarnir á að tala hátt og snjallt um eigið frjálslyndi og umburðarlyndi. En þegar upp er staðið eru þeir í raun aðeins teknókratar – samfélagsverkfræðingar sem eru sannfærðir um að hægt sé að leysa flest viðfangsefni þjóðar við skrifborðið, í töflureikni og reiknilíkönum. Teikniborð teknókratans er allt samfélagið. Í huga samfélagsverkfræðingsins er honum ekkert mannlegt óviðkomandi. Vandamál, raunveruleg og huglæg, eru hans ær og kýr. Stjórnlyndi er honum í blóð borið.

Fátt kemur samfélagsverkfræðingum meira úr jafnvægi en efasemdir um að vandi sem þeir hafa dregið upp á teikniborð sín, sé til staðar eða hann sé jafn mikill og þeir hafa sannfærst um. Nýlegt dæmi um þetta er launamisrétti kynjanna og umræða um nauðsyn þess að lögþvinga fyrirtæki til jafnlaunavottunar.

Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi, heldur því fram að engin áreiðanleg gögn sýni fram á að kynbundinn launamunur sé til staðar á Íslandi. „Allar kannanir stéttarfélaga sem ég hef séð síðustu árin eru algjörlega marklausar,“ sagði Einar í samtali við mbl.is. Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands, benti á í viðtali við Morgunblaðið að skýringin á því að óútskýrðan launamun væri að finna í rannsóknum á launum kynjanna, væri að alltaf væri verið að gera sömu villuna:

„Það er ekki verið að margendurtaka rannsóknir, það er verið að margendurtaka sömu vitleysuna.“

Þessum efasemdum Einars og Helga er svarað með þjósti. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, vísar til þess að Evrópusambandið hafi komið sér saman um ákveðna aðferðarfræði:

„Vita þessir spekingar, þeir Einar og Helgi, meira en þessir hagfræðingar og tölfræðingar sem hafa komið sér saman um þessa aðferðafræði?“

Þannig er gagnrýnendurnir afgreiddir af samfélagsverkfræðingunum. Efnisleg umræða er þeim lítt að skapi. Andstæðum sjónarmiðum og skoðunum er mætt með tilraunum til að gera lítið úr einstaklingum, skiptir engu hvort um er að ræða viðurkennda fræðimenn eða stjórnmálamenn.

Hér verður það látið liggja á milli hluta hve öfugsnúið það er að boða aukin afskipti ríkisins í nafni frjálslyndis og leggja íþyngjandi kvaðir á fyrirtæki til að leysa vanda og misrétti, sem enginn veit hversu mikið er í raun eða hvort það er fyrir hendi.

 

Helga Arnardóttir fréttamaður ræddi við Elsu S. Þorkelsdóttur fyrrum framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 21. febrúar:

elsathorkelsdottirHelga: Það eru efasemdarraddir uppi um hvort kynbundinn launamunur sé yfirhöfuð til staðar. Og af hverju er það svo af því að manni finnst eins og það sé alveg skýrt og tölur sýni það svart á hvítu. Er það ekki skýrt eða hvað? Er ekki hægt að taka mark á launakönnunum og tölum sem hafa verið birtar, á kynbundnum launamun?

Elsa: Sko kannanir sem við höfum sýna ekki kynbundinn launamun, þær sýna launamun milli kvenna og karla, til dæmis innan BSRB, innan VR eða ef þú tekur launakannanir hagstofunnar. Lögin byggja hins vegar á því að það sé sérhvers atvinnurekanda að tryggja að innan síns fyrirtækis eigi sér ekki stað mismunun. Auðvitað er verulega líklegt að ef að hver könnunin á fætur annarri, þó hún fari þvert á vinnumarkaðinn, að þann mun megi skýra að einhverju marki með kynbundnum launamun en það fullyrðir það ekki.

Helga: Tölfræðingar og stærðfræðingar hafa verið að gangrýna það að þessar kannanir sýni það ekki alveg svart á hvítu hvort kynbundinn launamunur sé til staðar.

Elsa: Nei þær gera það ekki.

 

Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins skrifaði um hina boðuðu lögleiðingu jafnlaunavottunar í Viðskiptablaðið 23. febrúar.

asdiskristjansdottirTil stendur að leggja fram frumvarp um lögfestingu jafnlaunastaðalsins en í því felst að ríflega 1.200 fyrirtæki verða skikkuð til að taka upp vinnubrögð sem krafist er í staðlinum. Engin önnur þjóð hefur farið þessa leið og hvergi í heiminum eru staðlar lögfestir.

Þó að launajafnrétti sé göfugt markmið þá er jafnlaunavottun kostnaðarsamt og flókið ferli og rétt að staldra við og spyrja sig hvort hún muni skila tilætluðum árangri.

Það hversu litla umræðu megin niðurstöðuskýrsla Velferðarráðuneytisins frá 2015 hefur fengið er því umhugsunarefni. Þar segir m.a.:

* Óútskýrður launamunur mælist 5,7% en í skýrslunni er skýrt tiltekið að varlega skuli fara í að túlka þá niðurstöðu sem hreina launamismunun. Tölfræðin nái aldrei yfir allar breytur sem ákvarða laun einstaklinga.

* Launamunur milli kynja hefur minnkað og er mun meiri hjá eldri kynslóðinni en þeirri yngri. Af þessu er ályktað að launamunurinn muni minnka á næstu árum.

* Meginorsök launamunar kynjanna er kynskiptur vinnumarkaður. Mennta- og starfsval kynjanna skiptir þar mestu.

Þar höfum við það. Við erum á réttri leið, óútskýrður launamunur, sem ekki er hægt að álykta að sé vegna kynferðis, hefur minnkað. Sá launamunur sem mælist kemur fyrst og fremst til vegna mennta- og starfsvals kynjanna.

Jafnlaunavottun innan fyrirtækja mun engin áhrif hafa á kynbundinn vinnumarkað og einungis skapa aukinn kostnað sem að lokum er borinn af neytendum og launþegum. Er mögulega betur heima setið en af stað farið?

 

Anna Hrefna Ingimundardóttir hagfræðingur skrifaði um þessi mál í Morgunblaðið 3. mars. Þar segir hún:

annahrefnaingimundardottirSterkt ákall hefur verið um að opinber stefnumótun styðjist við niðurstöður vísindalegra rannsókna, t.a.m. hvað varðar umhverfisvernd. Þeir sem halda fast í sínar fyrirfram mótuðu hugmyndir og afneita vísindunum þegar þau samrýmast þeim ekki eru álitnir illa upplýstir kjánar. Það er að sjálfsögðu skynsemi fólgin í því að taka tillit til vísindalegra rannsókna og nauðsynlegt að hlusta á málsmetandi sérfræðinga áður en lög eru fest. Annars er stutt í að lagabálkar mótist af lýðskrumi og samanstandi af illa ígrunduðum og skaðlegum stefnum. En þegar um réttlætismál eins og jafnrétti kynjanna er að ræða virðist eins og sumir kasti gagnrýnni hugsun fyrir róða.

Hvað segja vísindin um launamun kynjanna á Íslandi? Sé tekið mið af almennri umræðu mætti ætla að kerfisbundið misrétti viðgengist á íslenskum vinnumarkaði. Þó að kynbundinn launamunur sé til staðar gefa niðurstöður hagrannsókna ekki tilefni til slíkrar fordæmandi ályktunar gagnvart stjórnendum fyrirtækja. Eins og segir í skýrslu velferðarráðuneytisins frá 2015, Launamunur karla og kvenna: „Óskýrður launamunur felur í sér þann hluta launamunar sem skýribreytur og matsaðferð skýra ekki. Aðrar skýribreytur og aðrar aðferðir gætu þannig skilað allfrábrugðinni niðurstöðu. Varlega þarf því að fara í að túlka óskýrðan launamun sem hreina launamismunun.“ Einnig er bent á að „launamun milli kynjanna megi einkum rekja til kynbundins vinnumarkaðar. Mennta- og starfsval kynjanna skiptir hér mestu. Hagfræðikenningar gera ráð fyrir að valið sé frjálst… en taka ekki afstöðu til þess hvernig val fólks mótast.“

Í skýrslunni stendur því berum orðum að ekki sé hægt að túlka launamun milli kynja sem mismunun en að hann megi einkum rekja til ákvarðana einstaklinga sem hafa sína eigin nytjahámörkun og velferð að leiðarljósi. Til grundvallar slíkum ákvörðunum liggja margir aðrir þættir en laun.

 

Þótt sjónarmið áþekk þeim sem sjömenningarnir hér að ofan setja fram um launamun kynjanna hafi heyrst af og til undanfarna áratugi er þetta í fyrsta sinn sem hópur fólks úr ýmsum áttum kemur fram á sama tíma og bendir á hið augljósa; að þótt hinar takmörkuðu launakannanir gefi enn til kynna mun milli kynja þá sé ekki hægt að fullyrða að kynbunið launamisrétti sé til staðar.

Það eru markverð tímamót í umræðunni um jafnréttismál og mikilvæg forsenda fyrir því að framvegis verði hægt að ræða þessi mál af meiri yfirvegun.