Náum litlum árangri í loftslagsmálum án þess að endurheimta votlendi

Votlendisgróður undir Kirkjufelli. Endurheimt votlendis dregur ekki aðeins úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur hefur hún jákvæð áhrif á fisk, fugl og flóru landsins. Mynd: Shutterstock.

Í síðustu viku kom út skýrslan Ísland og loftslagsmál á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þar segir á bls. 138:

Þegar votlendi er ræst fram nær súrefni niður í jarðveginn og við það losna gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið þegar rotnun plöntuleifa hefst. Losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi á Íslandi árið 2013 var metin 11,7 milljónir tonna CO2 ígildi sem er 73% af um 16 milljóna tonna heildarlosun landsins. Endurheimt votlendis getur því vegið mjög þungt í mótvægisaðgerðum Íslands gegn loftslagsbreytingum. Þó ber að minna á að losun vegna lands sem framræst var fyrir árið 1990 er ekki talið fram í bókhaldi sem varðar skuldbindingar Íslands innan Kyoto bókunarinnar.

Um 73% af manngerðri árlegri losun hér á landi stafar þannig frá framræstu landi. Það blasir því við að þarna eru mestu sóknarfæri Íslendinga á þessu sviði.

Fólksbílar eru til samanburðar með innan við 4% af losuninni. Bíla- og eldsneytisframleiðendur eru sífellt að þróa nýjar leiðir til að draga úr losun frá bílum og sér ekki fyrir endann á þeirri jákvæðu þróun. Afskipti stjórnvalda af bílamálum hafa hins vegar getið af sér bæði Dieselsvindlið og lífolíuhneykslið og þannig seinkað mögulegum ávinningi af tækniþróuninni. Íslensk stjórnvöld eru þar engin undantekning.

Sjávarútvegur, svo annað dæmi sé nefnt, er með um 3% af hinni árlegu losun hér á landi en frá því kvótakerfið fór að ýta undir hagkvæmni veiða hefur útblástur frá íslenskum sjávarútvegi dregist saman um tæp 40%.

Íslendingar komu því til leiðar árið 2013 að endurheimt votlendis telst svonefnd mótvægisaðgerð og getur því talist til árangurs Íslands á þessu sviði og þar með talist með í loftslagsbókhaldi landsins þótt losunin hafi hafist fyrir viðmiðunarárið 1990.

Í nýju myndbandi frá París 1,5 hópnum fer Hlynur Óskarsson dósent við Landbúnaðarháskólann yfir málið á skýran hátt.