Bakaraland vinstri grænna tekur völdin

Auðvitað er miklu skemmtilegra fyrir fólk á hugmyndafræðilega háum hesti að vera í stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnarþátttaka krefst þess nær óhjákvæmilega að þynna þarf einhver baráttumál út með stefnumálum samstarfsflokka. Í stjórnarandstöðu er þetta ekki vandamál. Þar er hægt að halda sig við helstu hugsjónir, vera reiður alla daga, draga fána Sovétríkjanna að húni á sellufundum og baka kommatertu.

Út á við virðast vinstri grænir ekki tilbúnir til ríkisstjórnarsamstarfs með Sjálfstæðisflokki. Það er líklega órjúfanlegur hluti af því að vera reiður og baka Sovétköku.

En á hinn bóginn má spyrja hvort svikin við reiðina og stefnuna verði nokkru sinni meiri og verri en gerðist í hreinu vinstri stjórninni á árunum 2009 – 2013.

Má til dæmis nefna Dreka, Bakka, Icesave, ESB og loftárásir á Líbýu?

Það er ólíklegt að Sjálfstæðisflokki tækist á fjórum árum að fitja upp á jafn mörgum og svæsnum málum gegn stefnu vinstri grænna og gert var á árum hreinu vinstri stjórnarinnar. Á þessu hljóta forystumenn vinstri grænna að átta sig en treysta sér kannski ekki til að tala um fyrir fólkinu sem skreytir kökurnar sínar með hamri og sigð.