Undanfarið hafa tekjur launafólks hækkað mjög mikið og langt umfram verðbólgu. Það þýðir að kaupmáttur launa hefur vaxið mikið. Önnur afleiðing er hækkun skatttekna ríkis og sveitarfélaga, þar sem fleiri krónur koma nú í kassann af tekjuskatti og útsvari. Á móti að einhverju leyti kemur svo útgjaldaaukning ríkis og sveitarfélaga vegna hækkunar launa starfsmanna þeirra.
En krónurnar flæða nú í ríkiskassann og kassann hjá sveitarfélögunum.
Það eru ekki aðeins launin sem hækka. Verð fasteigna hækkar víða og það þýðir hærra fasteignamat sem þýðir hærri fasteignagjöld til sveitarfélagsins.
Nokkur sveitarfélög hafa nú ákveðið að lækka álögur á íbúa sína og verða þrjú nefnd hér. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ákveðið að lækka útsvar bæjarbúa úr úr 14,53% í 14,48% og þannig mun Hafnarfjörður ekki lengur innheimta hámarksútsvar af bæjarbúum.
Auðvitað má segja að þessi lækkun sé ekki mikil, en þetta er samt lækkun. Það er munur á því að lækka örlítið og lækka ekki neitt. Það er líka töluverður táknrænn munur á því að innheimta hámarksútsvar og að gera það ekki. Það sveitarfélag sem innheimtir hámarksútvar ákveður að taka eins mikið og það getur af launum íbúanna. Ef hámarksútsvarið væri hærra mætti búast við því að enn meira væri innheimt. Það sveitarfélag sem ekki fer í hámarkið hefur þá ákveðið að setja skattheimtunni sjálft mörk.
Um leið og hrósa má bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði fyrir útsvarslækkunina verður að hvetja þau til að stíga fleiri og stærri skref á næstu árum.
Bæjaryfirvöld í Borgarbyggð hafa nú ákveðið að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,49% í 0,47%. Rétt eins og full ástæða er til að hvetja bæjaryfirvöld í Borgarbyggð til að létta frekar álögum af bæjarbúum má hrósa fyrir hvert skref sem stigið er. Raunar voru fasteignagjöld í landinu hæst í Borgarnesi, samkvæmt fréttum síðasta sumar. Lækkun var löngu tímabær.
Bæjaryfirvöld í Kópavogi lækka einnig gjöld á íbúa sína. Fasteignaskattur verður lækkaður úr 0,26% í 0,255% og það verður fimmta árið í röð sem fasteignaskatturinn í bænum er lækkaður. Þá verður holræsagjaldið lækkað úr 0,169% í 0,14%. Þetta er fagnaðarefni fyrir fasteignareigendur í Kópavogi.