Síðast var vinstristjórnin tveggja flokka

Ef marka má fréttir hyggjast forystumenn vinstrigrænna reyna að mynda ríkisstjórn fimm flokka, hvort sem að allir fimm munu fá ráðherrasæti eða ekki. Eðlilega finnst mörgum ósennilegt að fimm flokka stjórn muni ganga vel að taka á málum yfir fjögurra ára kjörtímabil. Vinstristjórnin 2009-2013 var tveggja flokka stjórn og samt var þáverandi forsætisráðherra flesta daga að smala villiköttum eða kvarta yfir því hversu erfitt var að smala villiköttum. Á síðasta kjörtímabili voru Píratarnir þrír og þurftu vinnustaðasálfræðing með sér. Nú eru þeir tíu.

En hugsanlega ákveða menn að mynda slíka ríkisstjórn.

Í umræðunni hefur verið sagt að til þess að slík ríkisstjórn geti gengið þurfi að samþykkja nákvæman stjórnarsáttmála, svo hendur allra verði bundnar. Það getur hjálpað en kannski ekki mikið. Til að slík bönd haldi þurfa flokkar að vera fastir fyrir, forysta þeirra öflug og þingmennirnir reyndir í stjórnmálum. Þingmennirnir þurfa að vera vanir samstarfi, samningum, trúnaði og stjórnmálastarfi. Þeir þurfa að standast þrýsting fjölmiðla, eigin stuðningsmanna og vina og kunningja, þegar kemur að því að þingmálin verða umdeild. Slíkt getur gengið, en er ekki eins auðvelt og margir halda.

Það bætist hins vegar við að ekki er hægt að setja önnur mál í stjórnarsáttmálann en þau sem menn vita að glíma þarf við. Ný mál koma hins vegar upp, jafnt og þétt yfir kjörtímabil. Einn daginn þarf að taka á aflabresti, þann næsta á að senda hælisleitanda til Noregs, þriðja daginn kemur úrskurður frá kjararáði. Og svo framvegis. Það munu koma upp næstum óteljandi mál sem ekki er hægt að semja um í stjórnarsáttmála.

En það þarf ekki að vera útilokað að fimm eða fleiri flokkar geti verið í ríkisstjórn og náð árangri. Að minnsta kosti er ekkert öruggt að tveggja flokka stjórn reynist vel. Hún gerði það ekki á árunum 2009-2013.