Það geta ekki allir eignast Mercedes Benz bifreið. Slíkur bíll er of dýr fyrir flesta. Jafnvel þótt menn fái lán fyrir stórum hluta kaupverðsins verða greiðslurnar of háar. Fjöldi fólks fær aldrei að láta drauminn rætast og eignast sína eigin Benz bifreið.
Því hefur verið ákveðið að ríkið hlaupi undir bagga. Héðan í frá mun ríkið veita öllum sem vilja tveggja milljóna króna styrk til að kaupa sér Benz.
Hvað ætli gerist svo næst? Ætli næst verði allir komnir á Benz?
Eða ætli verðið á Benz-bílum hækki fljótlega um tvær milljónir? Hvert ætli tveggja milljóna styrkurinn renni þá í raun?
Reyndar hefur ríkið ekki enn byrjað að veita almenna styrki til Benz-kaupa. Fjöldi fólks getur því ekki látið þann draum rætast að sinni. En Samfylkingin hefur hins vegar lagt til að væntanlegir íbúðakaupendur geti fengið vaxtabæturnar fyrirfram og þannig átt fyrir útborguninni í íbúðina.
Ætli það muni hafa einhver áhrif á íbúðaverð?
Eins og menn vita veitir ríkið fólki vaxtabætur. Þeim er ætlað að auðvelda fólki að greiða vaxtakostnað af íbúðalánum en auðvitað geta menn velt fyrir sér hvort þær verða kannski frekar til þess að fjármálastofnanir geti farið fram á hærri vexti af íbúðalánum. Lántaki sem á von á vaxtabótum frá ríkinu getur samið um hærri vexti en sá sem fær ekki vaxtabætur. Í hvaða vasa renna vaxtabæturnar þá líklega í raun?
En ef gert er ráð fyrir að vaxtabætur virki einfaldlega eins og ætlast er til, að þær geri fólki kleift að eignast íbúð sem ella gæti það ekki, hvernig á þetta fólk þá að fara að þegar búið er að taka vaxtabæturnar út fyrirfram?
Ef vaxtabætur eru í raun nauðsynlegar svo fólk geti greitt af íbúðaláninu, hvernig á fólk þá að fara að þegar vaxtabæturnar runnu allar inn í útborgunina?