Framsókn stöðvar frumvarp sem afnemur þá skyldu að fjölga borgarfulltrúum um helming

Sett voru lög um það á síðasta kjörtímabili að fjölga þyrfti borgarfulltrúum úr 15 í að lágmarki 23. Nú hefur þingmaður Framsóknarflokksins sest á frumvarp sem afnemur þessa kvöð.

Sigríður Á. Andersen mælti í febrúar fyrir frumvarpi sem hún lagði fram ásamt átta öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og afnemur þá sjálfvirku fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 sem vinstri stjórnin leiddi í lög á síðasta kjörtímabili.

Málið gekk til umhverfis- og samgöngunefndar þingsins 16. febrúar og umsagnabeiðnir nefndarinnar voru sendar út viku síðar og frestur til að skila umsögnum rann út 8. mars. Í umsögn um málið kom fram að vinstri flokkarnir í borgarstjórn – Píratar, Björt Framtíð, Samfylking og VG – eru því andvígir. Þeir vilja að borgarfulltrúum fjölgi um að minnsta kosti 53% við næstu borgarstjórnarkosningar. Þeir vilja að ríkið taki ráðin af borgarstjórninni um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað.

Umræðu um málið lauk í nefndinni í maí.

Og þar við situr.

Höskuldur Þórhallsson formaður nefndarinnar og þingmaður Framsóknarflokksins vill ekki afgreiða málið úr nefndinni.

Hvers vegna leggst Höskuldur á sveif með vinstri flokkunum í þessum máli?

Auðvitað er engin málefnalega ástæða fyrir því að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til fjölgunar borgarfulltrúa eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Nú eru um átta þúsund kjósendur að baki hverjum borgarfulltrúa og er það svipað hlutfall og tíðkast í höfuðborgum Norðurlandanna.