Samfylkingarflokkarnir með 25% fylgi

Fólkið í Samfylkingarflokkunum stofnaði sérstök samtök til stuðnings Icesave ánauð vinstri stjórnarinnar. Samtökin auglýstu málstað sinn fyrir milljónir.

Andstæðingar Samfylkingarinnar kunna að brosa góðlátlega yfir fylgi hennar í könnunum undanfarið sem mælst hefur 6 – 9%.

En þá gleyma þeir því að tveir afleggjarar úr flokknum ætla að bjóða fram með sömu stefnu og Samfylkingin og að hluta til með mannskap úr Samfylkingunni. Björt framtíð gerði þetta í síðustu kosningum og nú hefur Viðreisn bæst í hópinn.

Hryggjarstykkið í stefnu þessara þriggja flokka er aðild Íslands að Evrópusambandinu. Helstu frambjóðendur þessara flokka eiga það sömuleiðis flestir sameiginlegt að hafa barist af mikilli óbilgirni fyrir því að Íslendingar yrðu gerðir ábyrgir fyrir Icesave skuldum einkabanka. Viðreisn virðist hreinlega stofnuð af fólki sem felldi hugi saman við þá iðju í sérstökum Já-Icesave samtökum.

Samkvæmt könnunum er samanlagt fylgi þessara þriggja flokka að mælast um og yfir 25%.