Fimmtudagur 14. mars 2016

Vefþjóðviljinn 105. tbl. 20. árg.

Það virðast lítil takmörk fyrir því sem stjórnmálamenn geta misskilið. Og séu þeir í réttu liði gera fréttamenn engar athugasemdir.

Þannig komast leiðtogar Pírata upp með að tala um að ríkisstjórnin, sem styðst við mjög ríflegan meirihluti réttkjörinna alþingismanna, „fremji valdarán“ með því að stytta ekki kjörtímabilið og láta kjósa sem allra fyrst. Þessi ranghugmynd er svo ótrúleg að það er með hreinum ólíkindum að þeir sem setja hana fram njóti samkvæmt könnunum mests stuðnings allra flokka.

En það er líka margt sem stjórnmálamenn misskilja.

Eitt af því tengist „hagsmunaskráningu“ þingmanna. Þar eru valdir úr tilteknir fjárhagslegir hagsmunir og þingmönnum sagt að birta þá. Enginn virðist velta fyrir sér hvort einhver réttlæting sé í raun fyrir slíkri kröfu.

Margir eru farnir að misskilja hlutverk þingmanna. Þingmenn taka ekki stjórnsýsluákvarðanir. Þingmenn marka pólitíska stefnu. Þingmenn eru kjörnir af kjósendum, ólíku fólki sem hefur ólík sjónarmið að leiðarljósi.

Það er eins og einhverjir séu farnir að halda að sé til einhver einn „þjóðarhagur“, og kosningar snúist um að einn aðili, „þjóðin“, velji sér verktaka, þingmenn, til að vinna það verk að efla þjóðarhag.

Það er ekki þannig.

Það er fullkomlega í samræmi við stjórnskipun landsins og í samræmi við meginreglur lýðræðis að þingmenn gæti ólíkra hagsmuna í störfum sínum.

Það er til dæmis ekkert að því að öryrkjar taki sig saman um framboð sem hefur það meginmarkmið að bæta kjör öryrkja. Listi framboðsins væri til dæmis eingöngu skipaður öryrkjum. Dettur einhverjum í hug að í þingstörfum sínum mættu fulltrúar þessa framboðs ekki taka hagsmuni öryrkja fram yfir einhverja aðra hagsmuni?

Það væri heldur ekkert að því að áhugamenn um hvalveiðar stofnuðu flokk, Skutulinn, og byðu fram Kristján Loftsson í efsta sæti. Auðvitað mætti hann tala á þingi fyrir hvalveiðum. Rétt eins og náttúruverndarmenn mættu bjóða fram Árna Finnsson til að berjast gegn hvalveiðum.

Var eitthvað að því að leikstjórinn Kolbrún Halldórsdóttir sæti á þingi fyrir VG og berðist fyrir hagsmunum sjálfstæðra leikhópa og öðru sem hún taldi koma íslensku leikhúslífi til góða?

Voru ekki bornir fram sérstakir kvennalistar og sögðu frambjóðendur þeirra ekki að þeir ætluðu sérstaklega að berjast fyrir því sem þær töldu vera málefni kvenna og barna?

Þegar menn eru farnir að heimta að þingmenn upplýsi um eigur sínar eru menn komnir á mjög undarlega braut þótt auðvitað sé þingmönnum heimilt að upplýsa um þær kjósi þeir svo. Fyrir utan það augljósa að mjörg margt annað en eigur manna er líklegt til að þess að hafa áhrif á þá. Skuldir manna eru þar augljóst dæmi. Sá sem fleytir sér með herkjum frá mánuði til mánaðar er í mjög viðkvæmri stöðu og hvert einasta smáatriði getur haft áhrif á hann. Eignir hér og hvar skipta flesta miklu minna máli.

En það sem flesta stjórnmálamenn skiptir miklu meira máli en einhverjar eignir, eru stuðningsmennirnir. Ef menn hefðu raunverulegar áhyggjur af því að stjórnmálamenn létu óeðlilega hagsmuni hafa áhrif á sig, ættu þeir að horfa á stuðningsmennina. Þessa sem enginn veit hverjir eru.

Hverjir eru stjórnmálamanni ómetanlegir? Hvers vegna krefjast siðbótarmenn ekki að stjórnmálamaður afhendi lista yfir nánustu stuðningsmenn sína, þá sem hann vill alls ekki missa frá sér? Hverjir hringja flest símtöl í prófkjöri? Hverjir tryggja jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum? Hverjir blogga um stjórnmálamanninn og framfaramálin hans? Hvaða vini á stjórnmálamaðurinn á fréttastofunni? Hverjir bjóða honum að tala á fundum?

Það er ekkert úrslitaatriði að taka fram í skráningu að stjórnmálamaður hafi ákveðið að kaupa hlut í erlendu félagi sem ætlar að fjárfesta úti í heimi. Það hefur engin áhrif á stjórnmálastarf hans. En ef stjórnmálamaður á sér ekki von í næsta prófkjöri nema hann njóti áfram öflugs stuðnings úthringimaskínunar í íþróttafélaginu, þá er kannski meiri ástæða fyrir fólk að velta því fyrir sér.

En það vill enginn. Mönnum finnst hins vegar sjálfsagt að stjórnmálamenn standi fyrir fjárhagslegum nektarsýningum ofan á alla aðra auðmýkt sem þeir eiga að sýna.

Milli þess sem minnihlutinn sakar meirihlutann um valdarán.

Það er víst algert hneyksli að meirihlutinn vogi sér að sitja áfram, rétt eins og hann sé í meirihluta. Minnihlutinn telur sig rétt á því að þingið verði rofið, ef skoðanakannanir eru hagstæðar.