Föstudagur 15. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 106. tbl. 20. árg.

Það er eiginlega lágmark að hreinsa fyrst upp 1.300 milljarða skuldirnar áður en farið er að safna nokkrum milljörðum í „þjóðarsjóð“.
Það er eiginlega lágmark að hreinsa fyrst upp 1.300 milljarða skuldirnar áður en farið er að safna nokkrum milljörðum í „þjóðarsjóð“.

Það er sagt að allir stjórnmálaflokkarnir séu áhugasamir um stofnun „þjóðarsjóðs“ sem safni fé til mögru áranna. Rætt er um að þarna verði tugum milljarða króna komið fyrir.

Þverpólítísk mál af þessu tagi eru oftast viðvörunarhringing fyrir skattgreiðendur. Ekki síst þegar ný verkefni á vegum ríkisins eru kennd við þjóðina.

Hvers vegna ætti ríkið að geyma slíkan varasjóð fremur en skattgreiðendur sjálfir? Eru stjórnmálamennirnir líklegri en einstaklingarnir til að setja þetta fé í skynsamlega ávöxtun?

Reyndar er þegar til „þjóðarsjóður“ sem ætlaður er komandi kynslóðum. Á myndinni hér að ofan er efnahagur sjóðsins. Þarna eru 1.300 milljarðar í mínus. Það eru um tvöfaldar árlegar tekjur ríkissjóðs. Í vexti af þessu greiðir ríkissjóður einmitt tugi milljarða á ári.

Ætli það þætti sannfærandi ef maður með 4 milljónir króna í ráðstöfunartekjur á ári og 8 milljóna yfirdrátt gæfi út þá yfirlýsingu að hann væri byrjaður af safna í varasjóð og greiðslurnar í sjóðinn væru lægri en vaxtakostnaðurinn af yfirdrættinum?