Laugardagur 26. mars 2016

Vefþjóðviljinn 86. tbl. 20. árg.

Á síðasta ári voru festir í lög um sölu fasteigna þeir almennu mannasiðir að upplýsa um hagsmunatengsl.
Á síðasta ári voru festir í lög um sölu fasteigna þeir almennu mannasiðir að upplýsa um hagsmunatengsl.

Það eru víða gerðar kröfur í þjóðfélaginu. Á síðasta ári var til að mynda skerpt á kröfum til fasteignasala og starfsmanna þeirra. Þeir mega ekki kaupa eign sem þeim hefur verið falin sala á. Og ekki nóg með það. Eins og segir í lögunum:

Hið sama gildir einnig um maka fasteignasala eða starfsmanns hans, hvort sem um er að ræða hjón, aðila sem búa í óvígðri sambúð, aðila í staðfestri samvist eða aðila í skráðri sambúð, og þann sem er skyldur eða mægður fasteignasala eða starfsmanni hans í beinan legg eða tengdur með sama hætti vegna ættleiðingar. Þá er félagi sem framangreindir aðilar eiga eignarhlut í óheimilt að kaupa eign sem fasteignasalanum hefur verið falin til sölumeðferðar.

Á þessu var gerð ein undantekning eins og Frosti Sigurjónsson framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar rakti í ræðu:

Gerð er sú undantekning að fasteignasala sé heimilt að taka eign til sölumeðferðar sé eignatengsla getið í söluyfirliti viðkomandi eignar. Því til viðbótar verður fasteignasali að tryggja að væntanlegur tilboðsgjafi skrifi undir sérstaka yfirlýsingu þess efnis að honum sé kunnugt um eignatengslin áður en tilboðið er gert. Ekki nægir að slík yfirlýsing komi fram í tilboði heldur ber að leggja til grundvallar almenna orðskýringu. Þá ber fasteignasali að öllu leyti halla af því ef ekki hefur tekist að upplýsa að slík sérstök yfirlýsing væntanlegs tilboðsgjafa hafi verið gefin áður en tilboð var gert í viðkomandi eign. Í ljósi ákvæða 15. gr. laga nr. 70/2015 yrði væntanlega talið að brot af hálfu fasteignasala eða starfsmanna hans á 2. mgr. 14. gr. væri alvarlegt trúnaðarbrot.

Ef menn eiga hagsmuna að gæta eiga þeir að segja sig frá málinu eða upplýsa með skýrum hætti um hagsmunatengslin. Annað er alvarlegt trúnaðarbrot, fasteignasalans.