Föstudagur 25. mars 2016

Vefþjóðviljinn 85. tbl. 20. árg.

Einn af göllunum við Evrópusambandið og þar með evrópska efnahagssvæðið að einhverju leyti er samhæfingin. Allt skal steypt í sama mót með stöðlum, tilskipunum og regluverki. Þetta hefur lamandi áhrif á nýsköpun og framtak í löndum sambandsins. 

Og með samhæfingunni hafa þunglamalegar stofnanir eftirlit.

Með þeirra eru samkeppnisstofnanir sem eltast við fyrirtæki sem bjóða of hátt verð (okur), lágt verð (undirboð) og sama verð og aðrir (samráð). Það er vandlifað.

Í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar skrifar Ragnar Árnason hagfræðiprófessor um „Lausbeislaðar, vanhæfar eftirlitsstofnanir.“

Þar segir hann að uppskera Samkeppniseftirlitsins sé ekki beysin.

Hún felst fyrst of fremst í að leggja vanhugsaða fjötra og byrðar á atvinnulífið sem valda ástæðulausum brenglunum og kosta stórfé sem skaða almannahag í stað þess að bæta hann.

Ragnar segir Samkeppniseftirlitið langt frá því að vera einu eftirlitsstofnunina af þessu tagi.

Það er fyrir löngu kominn tími til að forráðamenn þessa lands átti sig á því út í hvaða óefni er komið, láti af þeim ósið að apa hugsunarlaust eftir erlendum stofnankerfum og taki til við það mikilvæga verkefni að endurskoða núverandi eftirlitsstofnanir frá grunni og leggja þær af sem svara ekki kostnaði við íslenskar aðstæður.