Fimmtudagur 24. mars 2016

Vefþjóðviljinn 84. tbl. 20. árg.

Í gær var hér minnst á mikilvægi þess að láta ekki undan yfirgangi og nefnd nokkur dæmi úr sögunni um staðfestu fyrir vestrænum gildum.

En ekki þarf að leita langt yfir skammt.

Á síðasta ári voru til að mynda uppi háværar raddir þess efnis að láta undan viðskiptaþvingunum Pútíns forseta Rússlands.

Innflutningsbanni Pútíns á alls kyns matvæli frá Vesturlöndum var ætlað að sundra samstöðu þeirra gegn hernaði Rússa í Úrkaínu. Samstöðu sem birtist meðal annars í vopnasölubanni og takmörkunum á umsvifum helstu stríðsherra Pútíns og rússneskra ríkisfyrirtækja á Vesturlöndum.

Þessari samstöðu ætlaði Pútín að riðla með því að banna rússneskum almenningi að neyta matvæla frá Evrópu og Bandaríkjunum.