Miðvikudagur 23. mars 2016

Vefþjóðviljinn 83. tbl. 20. árg.

Strax við fyrstu fréttir af hryðjuverkaárásunum í Belgíu í gær tóku að heyrast hefðbundin viðbrögð. Við ætlum ekki að láta þessa menn neyða okkur til að breyta „okkar vestrænu gildum“. Þá fyrst hafa hryðjuverkamennirnir unnið, ef við breytum háttum okkar og reglum.

En hver eru vestrænu gildin sem ekki má hagga, svo hryðjuverkamennirnir vinni ekki?

Jú, auðvitað koma þar við sögu frelsi fólks, réttur til einkalífs, réttur til tafalausra ferðalaga, tjáningarfrelsi, trúfrelsi og svo framvegis. Við viljum ekki láta neyða okkur til að lifa í lögregluríki, og er þá átt við raunveruleg lögregluríki en ekki það sem þingmenn Pírata halda að þeir búi í.

En vestræn gildi eru fleiri.

Öryggi borgaranna. Öryggi landsins.

Þótt nokkrir friðsælir áratugir hafi nægt til þess að einhverjir hafi gleymt því, þá er einnig ríkur þáttur í vestrænum gildum að hvert ríki gæti öryggis síns og borgara sinna. Bretar gáfust ekki upp, undir loftárásum Þjóðverja. Í þeim ríkjum sem Þjóðverjar lögðu undir sig, störfuðu hugrakkir menn í andspyrnuhreyfingu og lögðu líf sitt í hættu á hverjum degi til að reyna að endurheimta frelsi lands síns. Eftir heimsstyrjöld mynduðu vestræn ríki varnarbandalag, NATO, sem tryggði öryggi þeirra gegn ógninni úr austri.

Það að verjast yfirvofandi ógn og nota til þess þær aðferðir sem ekki verður komist hjá hverju sinni, er í fullu samræmi við vestræn gildi.

Með því er ekki sagt að nota eigi hvaða ráð sem er. Það á að nota þau ráð sem verður að nota, en spara hin. Með þessu er heldur ekki sagt að það liggi í augum uppi hvernig þarna verði greint á milli, eða hvað eigi yfirleitt að gera til að verja vestræn ríki og borgara þeirra fyrir þeim, sem nú hafa ítrekað sýnt í verki vilja sinn til að vinna þeim illt.

En það að loka augunum fyrir þeirri hættu sem blasir við er svo sem ekki óþekkt heldur í evrópskri sögu. Fjöldi manns barðist fyrir því árum saman að Vesturlönd afvopnuðust, svo að Sovétríkjunum fyndist sér ekki ögrað. Fyrr á öldinni hafði vestrænum stjórnmálamönnum líka tekist að semja um frið á sínum dögum. Þá stóðu allir meginstraums stjórnmálamennirnir saman.