Helgarsprokið 27. mars 2016

Vefþjóðviljinn 87. tbl. 20. árg.

Ef segja má að til sé nokkuð sem heitir íslenskt efnahagslíf, þá má segja að þar gangi nokkuð vel þessi misserin. Efnahagslegar stærðir í landinu eru margar á réttri leið. Kaupmáttur alls þorra fólks vex hratt, skuldir fólks minnka, meirihluti manna segist nú safna sparifé, og þannig mætti lengi telja. En stjórnarflokkarnir virðast ekki njóta þessa, ef marka má skoðanakannanir. Margir ætla nefnilega ekki að meta stjórnmálamenn eftir hefðbundnum efnislegum mælikvörðum, svo sem eftir mælanlegum árangri við stjórn ríkisins, heldur eftir einhverjum allt öðrum atriðum.

Auðvitað má benda á hluti sem ekki færast eins hratt til betri vegar. Skattalækkanir hafa verið allt of litlar þótt mörg hundruð tollar og vörugjöld hafi verið afnumin. Tekjuskattur hreyfist hægt niður á við. Ríkisstjórnin breytti ekki reglum um auðlegðarskatt heldur hélt þeim óbreyttum eins og Steingrímur og Jóhanna höfðu ákveðið. Veiðigjöld eru ennþá miklu hærri en gert var ráð fyrir þegar þau voru sett á í upphafi, og hafa reynst þungur baggi á sjávarútveginum. Ríkið á nú eða er að eignast allt of stóran hlut í atvinnulífinu. En þessi atriði skýra ekki hvers vegna fjöldi fólks ætlar að nýta atkvæði sitt til að koma á nýrri vinstristjórn undir forystu Birgittu Jónsdóttur. Birgitta vill enga skatta lækka og engar ríkiseignir selja, svo vitað sé.

Forsendur virðast hafa batnað til afnáms gjaldeyrishafta á mælikvarða þeirra sem hafa haldið í átta ár að þörf sé á slíkum höftum. Það verður mjög jákvætt að losna við höftin.

Þeir sem bera hag opinberra bótaþega fyrir brjósti og vilja að þeir fái sem hæstar bætur hafa meiri ástæðu en oft áður til að vera ánægðir. Bætur aldraðra og öryrkja hafa hækkað mikið undanfarið og kaupmáttur þessara hópa vaxið töluvert.

Við þessar aðstæður hefðu margir hugsað að ríkisstjórnin ætti fremur auðvelt endurkjör fyrir höndum. Auðvitað væru margir stuðningsmenn hennar á hægri kantinum ósáttir en á vinstri kantinum hefðu andstæðingarnir úr litlu að moða.

En svo sýna kannanir að stór hluti landsmanna ætlar að kjósa sér vinstristjórn undir forystu Birgittu Jónsdóttur og félaga til valda. Varla er skýringin sú að þriðji hver landsmaður telji að ríkisfjármálin væru betur komin hjá Birgittu en Bjarna Benediktssyni.

Stór hluti skýringarinnar er líklega „andrúmsloftið“ sem hefur verið skapað undanfarin ár. Stjórnmálaumræðan síðasta áratuginn hefur verið mjög sérstök. Pólitískur rétttrúnaður hefur verið áberandi en ekki síður hefur mikið borið á upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum sem hafa gengið yfir fólk. Skoðanir dynja á fólki allan daginn. Ljósvakamiðlarnir leiða hvern spekinginn á fætur öðrum í viðtöl til að fara með alls kyns kenningar. Fréttum á netinu fylgja oft upphrópanir reiðustu lesenda netmiðilsins. Staðleysur eru endurteknar úr mörgum áttum í senn. Áróðursgrein er skrifuð í blað sem er borið í tugþúsundir húsa. Gerð er frétt um greinina á netinu. Hópur manna tjáir sig um hana strax. Einhverjir slá öllu föstu sem greinarhöfundur hefur sagt. Aðrir bæta því við að samþykkja þurfi nýja stjórnarskrá strax.

Stjórnmálamenn hafa verið mjög hikandi við að berjast fyrir sínu í þessari þróun. Þeir hafa mun frekar fylgt þeirri aðferð að „sýna auðmýkt“ og vonast þannig til að sleppa sjálfir við verstu átökin. 

Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Víða um hinn vestræna heim hefur skapast „andrúmsloft“. Eru ekki flestir íslenskir þjóðmálaspekingar steinhissa á að appelsínugulur orðhákur, Donald Trump, fái þriðjungsfylgi í kosningum í Bandaríkjunum? Finnst þeim ekki hræðilegt að Franska þjóðfylkingin sé stærsti eða næst stærsti flokkur Frakklands? Hafa þeir ekki miklar áhyggjur af „öfgaflokkum“ um alla Evrópu? Kom þeim ekki á óvart þegar Jeremy Corbyn varð leiðtogi breska Verkamannaflokksins? Eða þegar Bernie Sanders kemst nálægt því að verða forsetaefni bandarískra demókrata?

Um allan heim hefur skapast „andrúmsloft“ sem fær stóran hluta kjósenda til þess að vilja senda „kerfinu“ fingurinn. Og engin rök bíta á þessa kjósendur. Hvaða della sem kemur upp úr frambjóðendunum þeirra, hefur engin önnur áhrif en að herða þá í trúnni. Í Bandaríkjunum finnst þriðjungi manna mjög fínt að „gömlu flokkarnir“ engist. Það finnst þeim bara enn ein sönnun þess að Trump sé maður nýs tíma. Að Trump sé einlægur. Hann sé ekki að þykjast vita allt. Hann segi bara hlutina eins og þeir eru. Milljónir manna bíða eftir að því að geta kosið Donald Trump forseta Bandaríkjanna.

Með þessu er ekki sagt að valdaflokkar víða um heim eigi ekki skilið að vera gerð skráveifa. Að „kerfið“ sé fullkomið. Öðru nær raunar. Og með þessu er ekki sagt að allt sé rangt sem Donald Trump og aðrir slíkir hafa fram að færa. Það má ekki gleyma því að þegar Trump segir eitthvað jarðbundið og skynsamlegt þá kemst það aldrei í fréttir. Það er bara það versta og vitlausasta sem kemst í fréttir frá fundum Trumps, enda gætir hann þess greinilega að tryggja sér sífellt pláss í fréttatímum með slíkum yfirlýsingum.

En þeir sem telja að stjórnmálamenn hafi í raun staðið sig illa og að þeim sé ekki treystandi fyrir mikilvægum málum, ættu ekki að velja sér bara einhverja aðra, heldur þá sem raunverulega ætla að minnka vald stjórnmálamanna yfir borgurunum.

Lausnin er ekki að færa ríkið í hendur bara einhverra annarra. Lausnin er að minnka ríkið og efla borgarann. Stórt skref í þá átt væri að minnka umtalsvert það fé sem stjórnmálamenn fá að taka af borgurunum. Með verulegum skattalækkunum er ríkið minnkað en borgarinn efldur.

En af einhverjum ástæðum mega margir þeirra, sem segjast ekki treysta stjórnmálamönnum, ekki heyra á þetta minnst.