Vefþjóðviljinn 43. tbl. 20. árg.
Það er ekkert nýtt að fjölmiðlar og álitsgjafar taki vinstrisinnaða stjórnmálamenn öðrum tökum en þá af hægri vængnum.
Í vikunni gerðist það að nemandi í Fellaskóla, sem ekki var í svonefndri „mataráskrift“ í mötuneyti skólans, vildi fá að kaupa stakan skammt sem aðeins er seldur í áskriftinni, en fékk ekki. Um þetta gerði einn vefmiðill frétt.
Við þeirri frétt brást maður einn með reiðipistli http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/11/fauk_hressilega_i_borgarstjora/ á Facebook. Hann sagði þar að hann skipti ekki oft skapi en þarna hefði fokið hressilega í hann. „Svona“ mættu menn ekki gera. Það ætti að „skapa samfélag fyrir alla“ og ef það væri „vafamál í huga einhvers“ þá ætti að hnykkja á því. Hann sagði svo í facebookfærslunni að hann væri búinn að óska formlega eftir skýringum á málinu frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Maðurinn sem varð svona reiður á Facebook er ekki hvaða almennur borgari sem er. Hann heitir Dagur B. Eggertsson og er borgarstjóri. Fellaskóli er einn af grunnskólunum sem Reykjavíkurborg rekur. Það er því æðsti yfirmaður skólastjórans og starfsfólksins þar sem lýsti reiði sinni á Facebook. Það er æðsti yfirmaðurinn sem gefur sterklega í skyn opinberlega að „einhver“ í Fellaskóla velkist í vafa um að borgin eigi að vera „samfélag fyrir alla“.
Hvernig hefðu fréttamenn og álitsgjafar látið ef stjórnmálamaður af hægri vængnum hefði birt slíkan reiðipistil um faglega starfsmenn á undirstofnun sinni? Ætli hugtak eins og „óttastjórnun“ hefði heyrst? Og þegar reiðipistlinum hefði lokið með yfrlýsingu um að stjórnmálamaðurinn væri búinn að biðja um skýringar, sem þýðir auðvitað að hann fór af stað á opinberum vettvangi áður en skýringar höfðu verið gefnar, hvað hefðu fréttamenn þá sagt?
Venjulegir borgarar geta auðvitað hellt úr skálum reiði sinnar yfir opinbera starfsmenn, þótt það sé ekki alltaf sanngjarnt eða kurteislegt. En þegar yfirmenn opinberu starfsmannanna gera það, þá er það það annar hlutur. Eins og fréttamenn og álitsgjafar myndu ekki vera lengi að benda á, ef stjórnmálamaðurinn væri af hægri kantinum.