Vefþjóðviljinn 44. tbl. 20. árg.
ÁTVR eyðir þessa dagana milljónum í auglýsingar um að vínbúðir einokunarfélagsins hafi verið efstar í íslensku ánægjuvoginni. Samkvæmt ánægjuvoginni eru 74% viðskiptavina vínbúðanna ánægð með þjónustuna.
Nú þekkir Vefþjóðviljnn ekki hvernig þessar kannanir eru gerðar en það liggur í augum uppi að það er erfitt að bera saman keðju einokunarverslana við til að mynda matvöruverslanir sem keppa hver við aðra.
Þótt matvöruverslanir fái að meðaltali einkunnina 70% er ekki loku fyrir það skotið að hærra hlutfall Íslendinga sé ánægt með matvöruverslanir en vínbúðir sem fá einkunnina 74%. Menn eru bara ekki endilega ánægðir með sömu matvöruverslunina. Maður sem kann ekki við sig í einni matvöruverslun fer bara í einhverja aðra. Sá sem er óánægður með verslanir ÁTVR getur hins vegar ekki leitað neitt annað.
En hvað sem öðru líður er áhugavert að þegar traust á alþingi mælist almennt 10 – 20% skuli 74% vera ánægðir með rekstur þingmanna á vínbúðum.