Miðvikudagur 13. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 13. tbl. 20. árg.

Einkavæðarinn kynntur til leiks í barnatímanum, skjótandi í myrkrinu.
Einkavæðarinn kynntur til leiks í barnatímanum, skjótandi í myrkrinu.

Það tók þá tvær vikur.

Á síðasta degi liðins árs sýndi Ríkisútvarpið barnaþátt þar sem harkalega var ráðist á Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Þarna var barnaefni í ríkisfjölmiðli notað undir harðan pólitískan áróður, sem er með miklum ólíkindum.

Viðskiptablaðið sagði frá þessu um áramótin og fleiri fjölmiðlar fjölluðu um þetta í framhaldi af því. En yfirstjórn Ríkisútvarpsins lét eins og ekkert hefði gerst.

Í dag skrifaði Óli Björn Kárason varaþingmaður grein um málið í Morgunblaðið þar sem hann fór yfir það og þingmennirnir Elín Hirst og Karl Garðarsson skrifuðu um það í Fréttablaðið.

Þá loksins lét Ríkisútvarpið svo lítið að biðjast afsökunar. Tveimur vikum eftir útsendinguna viðurkennir stofnunin að þarna hafi barnaþáttur orðið „vettvangur pólitískrar ádeilu“.

Það tók þá tvær vikur. Það er augljóst að yfirstjórnin ætlaði ekki að segja neitt um málið. En með þessari tveggja vikna þögn tók hún auðvitað sjálf ábyrgð á málinu. Enginn ætlast til þess að æðstu stjórnendur stofnunarinnar horfi á og hlusti á hvern einasta þátt fyrir útsendingu. En tveggja vikna þögn þeirra núna sýnir að þeir sáu ekkert að barnaefni þar sem ráðist er harkalega gegn einstökum stjórnmálamönnum.

Nú verður mjög fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Ef fram kemur að opinberar stofnanir brjóta lög og reglur sem um þær gilda telja fréttamenn slíkt yfirleitt stórmál. Þeir fjalla fram og til baka um það hvort menn ætli ekki að axla ábyrgð. Og þeir láta þann ráðherra, sem stofnunin heyrir undir, svara því skýrt hvort hann hyggist ekki gera eitthvað.

Hvað gera fréttamenn Ríkisútvarpsins nú?

Varla láta þeir eins og ekkert sé.