Þriðjudagur 12. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 12. tbl. 20. árg.

Annað forsetaefnanna sem vill losa bandaríska neytendur við lagaboð um etanólíblöndun hefur forystu í könnunum í sjálfu etanólríkinu Iowa.
Annað forsetaefnanna sem vill losa bandaríska neytendur við lagaboð um etanólíblöndun hefur forystu í könnunum í sjálfu etanólríkinu Iowa.

Etanólframleiðendur í Iowa ausa nú mörgum milljónum dala í baráttu gegn Ted Cruz í forvali Repúblíkana fyrir forsetakosningarnar það vestra. Cruz er efstur í könnunum.

Það er löng hefð fyrir því að forsetaefni bugti sig fyrir landbúnaðarhagsmunum ríkisins og frá 2005 þegar það varð að lagaskyldu (Renewable Fuel Standard) að blanda etanóli í bensín í Bandaríkjunum hafa áhugasamir um forsetaembættið jafnan lýst yfir stuðningi við lögin til að auka möguleikana á sigri í ríkinu, þar sem fyrsta forval beggja stóru flokkanna fer fram.

The Wall Street Journal segir að nú þegar frambjóðandi sem sé andsnúin lagaskyldunni leiði í flestum könnunum leggi etanólframleiðendur allt undir til að koma í veg fyrir sigur hans. Það sé ekki aðeins gert til að stöðva hann á leiðinni í Hvíta húsið. Hafi Cruz sigur muni aðrir frambjóðendur í framtíðinni einnig telja sig geta unnið forkosningar í ríkinu án þess að heita lagaboðinu stuðningi.

Meðal þess sem áróðursvél etanólframleiðenda hefur sent frá sér er spjald sem sýnir góða og vonda frambjóðendur. Vondir eru þeir sem vilja ekki hafa lagaskyldu um íblöndun matjurta-etanóls í bensínið. Allir frambjóðendur stóru flokkanna tveggja liggja flatir fyrir sérhagsmununum að Cruz og frjálshyggjumanninum Rand Paul frátöldum.

Í áróðri etanólframleiðenda er því haldið fram að ílböndun etanóls dragi úr útblæstri CO2. Mönnum verður hins vegar sífellt betur ljóst að það getur vart verið skynsamlegt að ryðja skóga, þurrka votlendi eða leggja annað gróið land undir ræktun af þessu tagi. Mörgum misbýður jafnframt að matvælum sé sóað í bílvélum með þessum hætti. Auk þess sem íblöndun etanóls leiðir til aukinnar eyðslu í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar.