Vefþjóðviljinn 362. tbl. 19. árg.
Hve margar milljónir dala af skattfé þarf til að framleiða matarolíu? Þannig er spurt í ritstjórnargrein The Wall Street Journal sem birtist í fyrradag.
Ástæðan er sú að fyrirtæki á borð við Solazyme hafa árum saman notið gríðarlegra styrka til að framleiða „endurnýjanlegt“ eldsneyti úr þörungum. Bíleigendur kæra sig ekki um afurðina og nú hefur fyrirtækið ákveðið að bjóða almenningi að nota olíuna í eldhúsinu sem matarolíu. Fyrirtækið þurfti 2,5 milljarða króna úr vösum skattgreiðenda til að komast að þessari niðurstöðu. Bon appetite!
Annað fyrirtæki, Amyris, var grænt gæludýr hjá Al Gore og hafði 3 milljarða króna af skattgreiðendum í gegnum orkumálaráðuneytið til að setja upp lífolíuverksmiðju. Amyris selur nú olíurnar í rakakrem og aðrar snyrtivörur.
Sapphire Energy hlaust yfir 13 milljarða króna í styrki frá ríkisstjórn Obama en hefur nú snúið sér að framleiðslu næringarefna á borð við Omega-3 fitusýrur.
The Wall Street Journal fagnar því að þessi fyrirtæki hafi fundið sér markað við hæfi. En vonar að stjórnvöld í Washington láti nú af grænu styrkjastefnunni. Það sé hlutverk fjárfesta að hætta fé sínu í ævintýri af þessu tagi en ekki stjórnmálamanna með annarra manna fé.
Hér á landi hófst samskonar græn misnotkun á skattfé á síðasta kjörtímabili. Fyrst var leitt í lög að skattgreiðendur skyldu niðurgreiða hvern lítra af „endurnýjanlegu“ eldsneyti um 70 krónur. Þegar það dugði ekki til að koma lífolíuglundrinu í umferð var lagaskyldu um notkun þess bætt við. Söluaðilum eldsneytis er nú gert að selja að lágmarki 5% „endurnýjanlegt eldsneyti.“ Fari söluaðilar eldsneytis ekki að þessum lögum eru þeir sektaðir í gjaldþrot.
Þetta leiddi í fyrstu til þess að flutt var inn rándýr lífolía sem blandað var í Dieselolíu. Nú virðist einnig hafinn innflutningur og íblöndun á korn-etanóli í bensín. Etanólið er bæði dýrt og inniheldur um þriðjungi minni orku (MJ/L) en bensín. Íblöndun þess leiðir því til aukinnar eyðslu (L/km) í bílvélum og fleiri ferða bíleigenda á bensínstöðvar.
Ríkisstyrkirnir til notkunar á endurnýjanlegu eldsneyti renna því að mestu leyti úr landi til erlendra framleiðenda lífeldsneytis. Heildarmagn innflutts eldsneytis eykst því af þessum sökum.
Lífeldsneytið kemur að mestu leyti frá Hollandi. Holland er það land í Evrópu sem notar einna minnsta endurnýjanlega orku (um 4% af heildarorkunotkun) á meðan Ísland er við toppinn með 75% hlutfall. Það hlýtur að vera einhvers konar met í sóun á fjármunum Íslendinga að þeir skyldi sjálfa sig með lögum til að kaupa dýra endurnýjanlega orku frá landi sem notar nær enga slíka.