Mánudagur 28. desember 2015

Vefþjóðviljinn 362. tbl. 19. árg.

Meðal jólabókanna í ár er stórt og mikið rit sem Páll Baldvin Baldvinsson hefur tekið saman um stríðsárin sem hann nefnir svo, 1938-1945. Bókin er full af fróðleik um atburði þessara ára, að nokkru leyti í stíl við Öldina okkar, en mun umfangsmeiri eins og sést af þvi að fjallað er um þessi átta ár á yfir þúsund blaðsíðum. Munu bæði þeir sem mikið vita um þessi ár, sem og auðvitað þeir sem lítið vita, geta fundið þar margt sem vekur áhuga þeirra, enda hefur höfundurinn unnið mikið verk við söfnun sína.

Í eftirmála verksins segir Páll að liðin séu þrjátíu ár síðan hann og útgefandinn fóru fyrst að ræða bók eins og þessa. Minnist hann svo á aðrar bækur sem komið hafa út um þessi ár og segir svo:

Þór Whitehead sagnfræðingur var þá kominn af stað með sína ítarlegu rannsókn á tímabilinu og á næstu árum birtust grundvallarrit hans um fjórða áratug tuttugustu aldar með reglulegu millibili. Er ekki á neinn hallað þó hér sé fullyrt að hans skerfur til íslenskra sögurannsókna er einstakur og ómetanlegur öllum sem fara þær slóðir. Birti hann niðurstöður sínar í greinum og síðar ritum og standa vonir til að lífsstarfi hans á þessu rannsóknarsviði íslenskrar sögu sé ekki lokið.

Hér er ekkert ofsagt. Þór Whitehead er einn allra vandaðasti og vandvirkasti sagnfræðingur Íslands á síðustu áratugum og fræðistarf hans einstakt og ómetanlegt, svo notað sé orðalag Páls Baldvins.

Þór hefur einnig orðið þess heiðurs aðnjótandi að fjallað hefur verið um hann með öðrum hætti en Páll Baldvin gerir hér. Var hann ekki um árið nefndur „svokallaður sagnfræðingur“ í ræðu á Alþingi, þegar niðurstöður hans komu illa við kaun vinstrimanna? Hugsanlega gæti Steingrímur J. Sigfússon rifjað upp slíkan dóm um Þór Whitehead, ef hann reyndi.

En hversu oft hafa álitsgjafar rifjað upp hvernig talað var úr ræðustól alþingis um þennan mikilvæga fræðimann? Ætli það hefði oftar verið gert ef hægrimaður hefði talað svona um manninn?