Vefþjóðviljinn 361. tbl. 19. árg.
Eins og lesa má í fréttum frá árinu 2002 var ekki síður rætt um fjárskort í heilbrigðiskerfinu þá en nú. Þá mátti líkt og nú finna mörg dæmi um að nokkrir tugir milljóna króna hér og nokkrir þar myndu stytta biðlista eftir aðgerðum og bæta líf þeirra sem í biðröðinni stóðu. Og þannig mun það alltaf verða í þessum málaflokki. Það verða alltaf færi til að bæta þjónustuna með auknu fé.
En árið 2002 var samþykkt á alþingi heimild til fjármálaráðherra til að veita bandarísku fyrirtæki að nafni deCODE Genetics Inc. ríkisábyrgð upp á US$ 200.000.000 vegna aukinnar starfsemi dótturfélags, Íslenskar erfðagreiningar, hér á landi.
DeCODE Genetics Inc. hafði verið stofnað árið 1996 og 1999 höfðu íslenskir ríkisbankar skorið erlenda stofnfjárfesta í félaginu úr snörunni með því að kaupa hlutabréf þeirra. Verðið sem ríkisbankarnir greiddu samsvaraði því að fyrirtækið væri verðmætara en nokkurt íslenskt fyrirtæki. Þó var þetta á þeim árum sem mikið var lagt upp úr því að fá erlenda fjárfestingu til landsins, ekki öfugt.
DeCODE Genetics Inc. óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í Bandaríkjunum árið 2009.
US$ 200.000.000 eru 26 milljarðar króna. Það er ríflega helmingur af rekstrarkostnaði Landspítalans á ári.
Maðurinn sem fór fram á þessa ofboðslegu ríkisaðstoð við hið bandaríska fyrirtæki heitir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári skrifaði á dögunum grein í Fréttablaðið þar sem hann hafði stóryrði um ranga forgangsröðun stjórnvalda í ríkisfjármálum. „Að svelta heilbrigðiskerfið er ekki bara ljótt heldur vond pólitík“ skrifaði Kári. Hann segir forsætis- og fjármálaráðherra hafa vætt buxur sínar og að fjárlaganefnd hafi komið fram við stjórnendur Landspítalans af „botnlausum hroka og grimmd.“
Hvernig getur maður sem ætlaðist til þess að skattgreiðendur yrðu gerðir ábyrgir fyrir tugmilljarða viðskiptaævintýrum hans sjálfs flutt slíkar skammarræður um meðferð skattfjár?
Af einhverjum undarlegum ástæðum eru lögin um ríkisábyrgðarheimildina vegna deCODE Genetics Inc. enn í gildi. Heimildin var ótímabundin svo ekki verður betur séð en að hún sé enn til staðar.
Nýlega lagði hins vegar Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp um brottfall laganna.