Vefþjóðviljinn 360. tbl. 19. árg.
Einn af óteljandi kostnaðarliðum Íslendinga vegna laga frá 2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum er stöðugildi á Orkustofnum. Starfsmanninum sem þar situr á kostnað skattgreiðenda er ætlað að halda utan um skráningu á því hvort seljendur eldsneytis uppfylli ekki lögin sem Carbon Recycling International skrifaði og Steingrímur J. Sigfússon lagði fram án þess að upplýsa þingmenn um höfundinn.
Starfsmaðurinn ritaði grein í Morgunblaðið 21. desember síðastliðinn þar sem segir meðal annars um það sem gerst hefur frá því lögin voru sett:
…því hefur innflutningur á endurnýjanlegu eldsneyti aukist. Eins og er eru um þrír fjórðu hlutar þess endurnýjanlega eldsneytis sem selt er á bíla hérlendis innflutt.
Þetta er ömurleg útkoma. Nánast ekkert annað innlent eldsneyti en metan (haugas) er selt í almennri sölu á bíla hér á landi og það eldsneyti var til staðar löngu fyrir lagasetninguna.
Hið innflutta „endurnýjanlega eldsneyti“ er einkum tvenns konar. Annars vegar lífdieselolía sem er um 150% dýrari í innkaupum en hefðbundin Dieselolía og svo etanól sem blandað er í bensín og er bæði mun dýrara í innkaupum og inniheldur þriðjungi minni orku í lítra en bensín.
Ríkisstofnanir á borð við Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Grænu orkan og Orkusetur brugðust raunar allar skyldum sínum þegar lögin voru sett, rétt eins og þær voru meðvirkar þegar vinstri stjórnin hóf að reka fólk úr bensínbílum upp í dýrari og meira mengandi Dieselbíla. Þessar stofnanir hefðu allar átt að vara stjórnvöld og almenning við því að þessi tvenn lög myndu leiða til óheyrilegs kostnaðar og verri mengunar auk hliðarverkana á borð við hærra matarverðs í heiminum, hungurs og skógareyðingar.
Í haust var svo loks upplýst að þessar stofnanir hafa á undanförnum árum vísvitandi gefið rangar upplýsingar um útblástur gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Þær hafa ítrekað haldið því að fólki að bílar eigi stóran þátt í útblæstrinum þegar hið rétta er að bílaflotinn ber aðeins ábyrgð á tæpum 4% af árlegri heildarlosun. Jafnvel þótt það væri sannleikanum samkvæmt að hægt væri að draga úr losun bílaflotans um 5% með því að blanda matjurtaeldsneyti (korn-etanoli og lífdísil) saman við hefðbundið eldsneyti væri einungis verið að minnka heildarlosun um tæp 0,2%.