Vefþjóðviljinn 356. tbl. 19. árg.
Í gær skrifaði Magnús Guðmundsson leiðara fullan af stóryrðum í Fréttablaðið um kjör aldraðra og öryrkja. Þar var sagt frá „ísköldum kveðjum“ og „smánarlegum“ kjörum ásamt því að ríkisstjórnin hefði ekki gott „hjartalag“ og vildi ekkert með „boðskapinn sem jólahátíðinni er ætlað að færa okkur“ hafa að gera.
Þó hækkuðu bætur umræddra hópa um 3% í byrjun árs og munu svo hækka um tæp 10% til viðbótar nú um áramótin. Þar með hafa þær hækkað um 13% á einu ári. Það kallar Magnús „ískaldar jólakveðjur.“ Hvað ætli bæturnar hefðu þurft að hækka til að Magnús teldi hækkunina ekki „ískalda kveðju“? Hvaða orð hefði hann notað ef bæturnar hefðu lækkað?
Og svo kom þetta:
Öllu hugrakkari var meirihlutinn þegar kosið var um hans eigin buddu og afturvirkar kjarabætur fuku í gegnum þingið án vandkvæða enda stutt til jóla með öllum þeim útgjöldum sem því fylgja.
Um breytingar á kjörum æðstu embættismanna og þingmanna var ekki tekin ákvörðun í þinginu heldur í kjararáði. Það var ekki kosið um þær á þingi eins og Magnús heldur fram. Fyrir margt löngu var ákveðið með lögum að þessi háttur skyldi hafður á. Að sjálfsögðu getur alþingi hvenær sem er fellt þetta fyrirkomulag úr gildi og þingmenn ákveðið laun sín sjálfir. En að halda því fram þingmeirihlutinn hafi að þessu sinni „kosið“ sérstaklega um „eigin buddu“ er ósönn lýsing.
Þessi ósannindi eru þeim mun undarlegri þegar haft er í huga að skammt er síðan kjararáð úrskurðaði um kjör þingmanna. Frá því var sagt fyrir mánuði og því ætti fyrirkomulagið að vera mönnum í fersku minni.