Mánudagur 21. desember 2015

Vefþjóðviljinn 355. tbl. 19. árg.

Margir forstöðumenn opinberra stofnana eru mikið í fjölmiðlum og halda þar fram stundum persónulegum skoðunum sínum á málefnum eigin stofnana.

Þar verða bæði ríkisforstjórarnir og fjölmiðlamennirnir að gæta sín. Forstjórinn á að veita hlutlausar upplýsingar en svo á hann að reka stofnun sína samkvæmt lögum og fjárveitingum.

Forstjóri Ríkisútvarpsins á til dæmis ekki að vera í stríði við Alþingi vegna fjárveitinga. Hann á að upplýsa ráðneyti og Alþingi um hversu mikið fé hann telur sig þurfa til að reka stofnunina, og svo er það hlutverk Alþingis að taka ákvörðun um fjárveitingar. Það er líka sjálfsagt að hann svari því sannleikanum samkvæmt hvaða áhrif niðurskurður, eða aukning framlaga, myndi hafa á reksturinn. Þar á hann hvorki að ýkja né draga ranglega úr. Þegar þingmenn hafa fengið hlutlausar upplýsingar taka þeir sína ákvörðun, og samkvæmt þeim starfar stofnunin.

Af og til hafa forstöðumenn opinberra stofnana leikið ljóta leiki til að hræða þingmenn frá sparnaði. Þá hafa þeir opinberlega gert ráð fyrir hinu versta og hvergi sparað við sig í lýsingum og jafnvel aðgerðum. Eitt haustið tilkynntu stjórnendur Landspítalans að þeir bara yrðu að loka glasafrjóvgunardeildinni, ef þeir fengju ekki meira fé úr ríkissjóði. Næst sögðust þeir verða að loka dagdeild heilabilaðra og gáfu aðstandendum einn sólarhring eða svo til að sækja sjúklingana. Allt bar þetta sterkan keim af áróðri en minni af upplýsingagjöf.

Forstöðumenn opinberra stofnana mega hafa sínar persónulegu skoðanir. En þeir mega ekki ruglast á persónulegum skoðunum sínum og skyldum forstöðumannsins.

Forstöðumenn opinberra stofnana eiga að reka þær fyrir þær tekjur og fjárframlög sem þeir fá til rekstrarins. Þeir eiga að veita hlutlausar upplýsingar um reksturinn og þarfir hans, en forðast að láta skoðanir sínar taka völdin.