Margir hafa miklar áhyggjur af umhverfismálum. Ýmsir hafa fyrst og fremst áhyggjur af langvarandi hlýnun í heiminum en svo eru aðrir sem hafa áhyggjur af öllu sem þeim dettur í hug að tengja umhverfismálum.
Gögn benda mjög til þess að hiti á jörðinni fari almennt hækkandi. Slíkt hefur gerst áður og meðal annars hefur áður verið hlýrra en nú, löngu áður en maðurinn vélvæddist. Því er að mörgu leyti réttara að tala um endurhlýnun jarðar en hlýnun. En það er aukaatriði hjá því að nú hlýnar og slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar víða, ef þróunin heldur áfram næstu áratugi.
Margir trúa því að hér eigi athafnir mannanna mesta eða alla sök. Þeir valdi hlýnuninni með athöfnum sínum. Aðrir telja slíkt alveg ósannað og segja að mun meira fari fyrir áróðri en raunverulegum sönnunum í máli þeirra sem kenna athöfnum manna um loftslagsbreytingar í heiminum.
En hvað er það sem veldur því að mannkynið þykir skyndilega fært um að breyta loftslagi í heiminum?
Það eru stórbætt lífskjör um allan heim. Meira athafnafrelsi, meira viðskiptafrelsi, meira frelsi. Af þessu spretta stórbætt lífskjör ótrúlegs fjölda fólks.
Hundruð milljóna manna, milljarðar manna, geta nú veitt sér ótalmargt sem áður var óhugsandi. Húsnæði, húsbúnað, tæki. Rafmagn er leitt í íbúðarhús, fólk eignast ísskáp og eldavél. Þeir sem áður unnu myrkranna á milli eiga nú frítíma. Tölvur og símtæki sem ganga fyrir rafmagni eru í vasa milljóna manna. Tómstundir eru nýttar til ferðalaga eða annarra áhugamála. Flugferðir eru ekki lengur munaður örfárra heldur raunverulegur ferðamáti milljóna manna.
Þetta síðastnefnda, flugferðirinar, eru tilvalið dæmi til að ræða í loftslagsumræðunni. Margir krefjast þess að „við færum fórnir“, í baráttunni við hlýnun jarðar. Hvað finnst þeim um þá þróun að flugferðir eru nú mun ódýrari en áður var, með þeim afleiðingum að flugferðum um loftin blá fjölgar á ógnarhraða. Vilja menn kannski snúa þeirri þróun við? Það er hægt. Það þarf bara að leggja veruleg aukin gjöld á flugfélög og þá mun fargjald hækka svo mikið að stórlega mun draga úr ferðalögum þorra manna. Það myndi draga úr eldsneytisnotkun við það.
Er mikill áhugi á þessu? Nei, kannski ekki. Þeir, sem krefjast þess að „við færum fórnir“, eru þeir tilbúnir til að fresta öllum utanlandsferðum um fimm ár, til að leyfa umhverfinu að „njóta vafans“?
Fáir hafa raunhæfar tillögur um nokkuð sem komið getur í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Ef menn vilja minnka notkun þess þarf fólk þá að hætta mjög mörgu því sem því finnst í dag spennandi og skemmtilegt. Það er alveg hægt. En vilja menn það?
Þegar menn hugsa um þær raunverulegu fórnir sem raunverulegt fólk þyrfti að færa, ef menn ætluðu sér í raun að ná þeim markmiðum sem fjallað er um á alþjóðlegum fundum þar sem fréttamenn eru næstum í yfirliði af spenningi, þá sjá þeir að það er ekki að ástæðulausu sem margir vilja fá raunverulegar sannanir fyrir kenningunum að hlýnun jarðar sé í raun af mannavöldum.
Hugsanlega getur þannig verið komið fyrir heilsu einhvers manns að hann haldi ekki lífi nema teknir séu af honum bæði fótur og hönd. En hann vill þá líka að læknirinn sýni sér fram á þetta með einhverju öðru en að kalla aðra menn afneitara.