Vefþjóðviljinn 348. tbl. 19. árg.
Rætt var við þrjá Parísarfara í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í kvöld.
Af lýsingum þeirra að dæma mun loftslagsráðstefnan sem þau sóttu hafa verið nánast yfirskilvitleg upplifun. Fólk klappaði, reyndi að faðma Al Gore, hljóp við fót til að ná í nýja bæklinga og fleira slíkt sem er vart prenthæft. Langt síðan sumir hafa komist í almennilegt partý.
En þrátt fyrir að Parísarmenn hafi þrímennt til að útskýra niðurstöðu ráðstefnunnar fyrir sjónvarpsáhorfendum voru áhorfendur litlu nær að þætti loknum.
Hvaða orkugjafar eiga að leysa olíu, kol og gas af hólmi? Eins og sjá má á myndinni hér að neðan annar jarðefnaeldsneytið enn um 85% af orkunotkun mannkyns. Það hlutfall hefur lítið breyst á undanförnum aldarfjórðungi.
Því miður hefur nánast ekkert miðað að því að finna orkugjafa sem keppt getur við jarðefnaeldsneytið. Það breyttist ekki á Parísarfundinum.