Þriðjudagur 15. desember 2015

Vefþjóðviljinn 349. tbl. 19. árg.

Nú er illa farið með konu. Þetta er kona sem á lítið undir sér og fáir horfa með jákvæðum augum til. Það er því sparkað í liggjandi mann. Þetta er lágkúrulegt, enda keppast menn um að koma henni til varnar.

Konan mun hafa sagt opinberlega eitthvað á þá leið að þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vildu eyðileggja íslenska náttúru og hálendi Íslands. Þetta voru því sárasaklaus ummæli og alls ekki meiðandi fyrir nokkurn mann, allra síst þá sem hafa skyldum að gegna gagnvart íslenskri náttúru og íslenskum hagsmunum til langs tíma.

Með öðrum orðum, hófstillt og sárasaklaust tal sem fáir hafa tekið eftir, nema hugsanlega einhverjar örfáar milljónir manna sem fylgjast með erlendum fréttastöðvum og prentmiðlum, og svo þeir fáu Íslendingar sem sáu innlendar fréttir af sömu ummælum. Aðdáendur konunnar, ef einhverjir eru, hafa svo frétt af þessu líka, en þeir eru eflaust fáir.

En þá gerist það óhugnanlega. Allt í einu sprettur upp heimsfrægur maður, Jón Gunnarsson alþingismaður, og segir að sér þyki konan vera daufleg til augnanna þar sem hún hefði birst með grímu. Þetta er grímulaus ósvífni hjá manninum, enda hefur hann verið fordæmdur harðlega. Svona gera menn bara ekki. Þessi maður verður að skilja að orð hans hafa vigt.

Það er ekki furða að menn flykkist til Pírata, þegar þeir sjá hversu hátt þeir reiða til höggs, þessir vondu fjórflokkamenn. Meiri leiðjuslagurinn sem þeir standa alltaf fyrir. Öfugt við þá sem eru alltaf að saka þá um spillingu.