Helgarsprokið 13. desember 2015

Vefþjóðviljinn 347. tbl. 19. árg.

Donald Trump vill eins og ýmsir fleiri stjórnmálamenn skikka bíleigendur til að setja orkurýrt korn-etanól í bensínið. Hann er ekki sá fyrsti sem telur að það auki líkur á sigri í Iowa.
Donald Trump vill eins og ýmsir fleiri stjórnmálamenn skikka bíleigendur til að setja orkurýrt korn-etanól í bensínið. Hann er ekki sá fyrsti sem telur að það auki líkur á sigri í Iowa.

Það styttist í fyrstu kosningarnar í forvali repúblíkana sem fara fram í Iowa í janúar. Donald Trump hefur hingað til staðið best í könnunum en Ted Cruz öldungadeildarþingmaður frá Texas skaust upp fyrir hann í einni könnun í ríkinu nú í vikunni þar sem Cruz hafði 31% stuðning en Trump 21%.

Þeir hafa hingað til ekki skipst á mörgum hnjóðsyrðum en það breyttist við þessa niðurstöðu í könnuninni.

Á framboðsfundi í Des Moines vakti Trump athygli á því að Cruz vildi afnema skyldu manna til að blanda etanóli í bensín. Sjálfur væri hann hins vegar mjög hlynntur etanóli eða öllu heldur því að skylda menn til notkunar á því. Hann hefði farið og heimsótt etanólframleiðendur nýlega og séð hve dásamlegt starf þeirra væri. Á fremsta bekk sátu fulltrúar etanólframleiðenda og klöppuðu fyrir Trump.

Ekkert ríki Bandaríkjanna framleiðir meira af etanóli en Iowa sem er með um þriðjung af framleiðslunni. Þar er maís uppskera af gríðarlegu landflæmi gerjuð og eimuð í etanól í stað þess að nýta hana í matvæli eða skepnufóður. Um helmingur af maísuppskeru ríkisins endar sem vínandi í bensíntönkum bifreiða þar sem hann eykur eyðslu og fjölgar ferðum á bensínstöðvar. Fjöldi manna hefur eðlilega atvinnu af þessu fyrirkomulagi, fjöldi kjósenda framfleytir sér og sínum því að þessari svikamyllu sem George W. Bush gangsetti árið 2006. Bush þótti etanól svo kjörið eldsneyti að það þyrfti að skikka bíleigendur til að nota það og niðurgreiða framleiðslu þess.

Með því að vera fyrsta ríkið í forkosningunum vegur Iowa margfalt á við önnur ríki því þar er tónninn gefinn. Þar er þungt á metunum að hafa sigur í fyrstu kosningunum.

Það er því ekki að undra að fáir frambjóðendur leggi til atlögu við lagaboðið um etanólíblöndunina.

Ef Cruz og Trump munu kljást um sigur í forkosningarnar í Iowa í janúar og þeir halda sig við núverandi afstöðu til lagaboðsins um etanólið verður fróðlegt að sjá hvort sérhagsmunirnir og forsjárhyggjan eða frjáls viðskipti verða ofan á.